Færsluflokkur: Bloggar

Húsgögn til sölu... kosta eina tölu

Við erum nú alveg að verða búin að ná okkur niður eftir allan æsinginn með þessi húsamál á þriðjudaginn. Það varð bara spennufall hjá okkur um kvöldið eftir að hafa svarað fullt af fyrirspurnum um íbúðina okkar, þrifið og tekið til, sýnt íbúðina, skrifað uppsagnarbréf og komið því í póst, gengið frá nýjum leigjanda og haft samband við fólkið í strandhúsinu til að tryggja að við fengjum það nú örugglega. Við hefðum getað leigt íbúðina okkar tíu sinnum út því það voru svo margir sem sýndu henni áhuga.

Ég svaf svo eins og steinn á aðfararnótt miðvikudagsins, gjörsamlega búin á því eftir allan þennan spenning :) Fór svo fersk í skólann og vann allan daginn í ritgerðinni minni. Í gærkvöldi fórum við svo í matarboð til hjónanna í strandhúsinu og skrifuðum undir leigusamninginn. Þetta var bara mjög kósý kvöld og við grilluðum roastbeef úti í garðinum og drukkum rauðvín með. Smá svona forskot á sæluna sem koma skal... eftir rúman mánuð :) Svo röltum við um húsið með þeim og pikkuðum út hvað við vildum nota af þeirra húsgögnum og hvað ekki... svaka gaman, svona eins og maður væri í innkaupaferð og gæti bara bent á allt sem manni langar í ;)

Fljótlega ætlum við svo að setja auglýsingu í Den Blå Avis og selja nokkra hluti sem við eigum og viljum gjarnan losna við. Gott að nota núna tækifærið til að hreinsa aðeins til hjá sér þar sem við fáum svo mikið af húsgögnum lánað hjá hjónunum. Ef einhverjum vantar þvottavél, uppþvottavél, sófasett, skrifborð eða kommóðu þá er bara að hafa samband :-)


Stuðstrumpar

Nú er sko allt að gerast og ég get sko alls ekki þagað yfir því... Fórum að skoða æðislegt hús við ströndina í Studstrup í gærkvöldi og urðum bara ástfangin upp fyrir haus. Mjög indæl hjón um fimmtugt sem eiga það sem ætla að sigla á skútunni sinni um Miðjarðarhafið í eitt ár frá 1. júlí. Við Hilmar vorum svo spennt þegar við komum heim í gærkvöldi að við lágum bæði andvaka í alla nótt að hugsa um húsið. Hringdum svo áðan í hjónin og spurðum hvort þau vildu leigja okkur það og þau héldu það nú! Buðu okkur í mat til sín annað kvöld til að ganga frá málinu :) Ég er svo glöð að ég er að springa!

Samkvæmt leigusamningnum okkar hér á Stavnsvej þurfum við að segja upp íbúðinni okkar með þriggja mánaða fyrirvara en leigufélagið samþykkti að gera undantekningu við okkur um mánaðaruppsagnarfrest ef við gætum sjálf fundið leigjendur frá 1. júlí og flutt úr íbúðinni 20. júní svo hægt sé að græja hana fyrir nýja leigjendur.

Það er bara eins og okkur sé ætlað að gera þetta því að á hálfum sólarhring erum við búin að skoða húsið, fá það samþykkt, segja upp íbúðinni hér á Stavnsvej, finna leigjanda, fá ókeypis búslóðageymslu í 10 daga og líka búið að bjóða okkur gistingu í þessa 10 daga :-)

Svo það er bara mánuður í flutning, dísjús kræst! Húsið í Studstrup er sem sagt í mjög rólegu hverfi 14 kílómetra frá miðbæ Árósa, alveg við ströndina og er hvorki meira né minna en 210 fermetrar. Við eigum eftir að fá víðáttu brjálæði þar sem við höfum búið í 80 fermetrum í 12 ár! Og þessi hjón spurðu okkur hvort við gætum ekki líka notað eitthvað af þeirra húsgögnum meðan við byggjum þarna svo þau þyrftu ekki að pakka öllu í geymslu. Það hentar okkur náttúrulega bara stórvel þar sem við eigum nú ekki húsgögn til að fylla alla þessa fermetra. Efri hæðin í húsinu er 140 fermetrar með stóru eldhúsi, stofu, baðherbergi og þrem svefnherbergjum og kjallarinn er 70 fermetrar með stóru gestaherbergi og baðherbergi með nuddbaðkari! Svo nú verður BARA gaman að fá gesti, nóg pláss og tveggja mínútna gangur á ströndina :)


Sunnudagur til sælu

Við hjónin vorum bara mjög dugleg í gær þó ég segi sjálf frá. Ég byrjaði nú daginn á því að baka hjónabandssælu... svona til að styrkja hjónabandið ;-) Nei, reyndar var mig að dreyma að ég væri að baka hjónabandssælu þegar ég vaknaði og var bókstaflega með bragðið í munninum, svo ég rauk fram úr, inn í eldhús og byrjaði að baka. Fyrsta skipti sem ég baka hjónabandssælu og hún tókst bara þrusuvel og kláraðist á 10 mínútum þegar Valur Snær kom arkandi inn með þrjá félaga sína á hælunum. Eyþór Atli missti af þessu öllu saman þar sem hann hjólaði snemma um morguninn til Timm sem er með honum í bekk.

Hilmar þreif alla gluggana á húsinu að utan svo nú þarf ég ekki lengur að skammast mín fyrir að eiga skítugustu gluggana á Stavnsvej, veiii. Svo slógum við grasið, reittum arfa, bárum áburð á túnið og vökvuðum blómin svo nú er allt ógilega fínt í litla garðinum okkar. Það er bara gaman að vinna svona í garðinum þegar veðrið er svona gott, sól og hiti, ummm... Enduðum svo daginn á að grilla kjúklingabringur og borða út í garði í kvöldsólinni og stundum yfir því hvað lífið væri nú ljúft og gott :)

Ég sagði Val Snæ í gær frá öllum gestunum sem eru væntanlegir til okkar í sumar og hann var fljótur að svara því til að ástæðan fyrir því að allir vildu heimsækja okkur væri örugglega af því að við værum svo skemmtileg! Og líka af því að við búum í Danmörku og þeir sem búa á Íslandi vilja kannski hitta okkur... alla vegana svona annað slagið.


Sumarið komið aftur

Nú er ég sest út í garð í sólbað sem er nokkuð sem ég er ekki búin að geta gert í nokkrar vikur vegna skýjaðs himins og rigningaskúra. Þvílíkt gott að láta sólina ylja sér, sól og 23 stiga hiti núna. Ég er meira að segja alveg búin að missa litinn sem ég var búin að fá í góða veðrinu hér í apríl... svo það er eins gott að fara að vinna það upp aftur.

Í gær, þegar við Guðlaug vorum búnar að læra, tókum við strætó upp í Hinnerup þar sem Hilmar og strákarnir voru hjá Sissa og krökkunum. Fengum þessar fínu vöfflur og náðum fyrri helmingnum af Man.Utd á móti Chelsea... og urðum fimmtíukalli fátækari eftir veðmál við Sissa um að liðið okkar myndi nú verða Englandsmeistarar :-(

Fórum svo upp í Harlev að passa Axel og Ara fyrir Hildi svo hún og Brynja gætu nú skellt sér á George Michael. Skil ekkert í Hilmari að bjóða mér ekki á þessa tónleika þar sem Goggi Mega er nú í miklu uppáhaldi hjá mér og við Hilmar byrjuðum meira að segja saman við Careless Whisper... á Duus Hús í eldgamla daga, tíhí.


Bara lærdómur

Búin að sitja með Guðlaugu minni niður í skóla síðan klukkan níu í morgun... og það er btw laugardagur! Nú er klukkan orðin hálf tvö og við erum eiginlega búnar að fá nóg, enda angar allt af reykingarstybbu hér í kringum okkur því við sitjum svo nálægt reykherberginu, jakk! Lentum í vandræðum með að finna sæti því það eru próf í nær öllum stofum hér og þeir sem ekki eru í prófi eru að lesa fyrir próf.

Í gærkvöldi skelltum við fjölskyldan okkur á Byens Burger og fengum þá í fyrsta skipti almennilega hamborgara hér í Danmörku. Fórum svo í bíltúr um hin ýmsu úthverfi Árósa til að leita að draumahúsinu okkar, ekkert fundið ennþá en það er aldrei að vita hvað gerist ef við erum nógu öflug í að beita hugarorkunni ;-)

Strætó kemur eftir 10 mínútur svo ég ætla að hætta að blaðra núna og stökkva héðan út og taka mér helgarfrí það sem eftir er helgarinnar, vei, vei, vei!


Leti-draugurinn

Mætt í skólann og löngu orðið tímabært enda er klukkan orðin hálf þrjú. Það er ekkert smá leiðinlegt að þurfa að læra þegar restin af fjölskyldunni er í fríi, bara eiginlega vonlaust mál fyrir mig. Búin að chilla endalaust í gær og í dag, píndi mig til að skrifa í einhverja tvo tíma í gær og ætla að skrifa í tvo til þrjá tíma í dag... úff hvað ég þarf á sparki í rassgatið að halda.

Skruppum í bíltúr í gærkvöldi sem endaði með heimsókn til Søren og Yuliyu í Skæring... sem hundskömmuðu okkur fyrir að hafa ekki látið sjá okkur í sex vikur. Ekkert smá sem tíminn flýgur áfram, finnst eins og það sé svona vika síðan við vorum í mat hjá þeim á föstudeginum langa. Annars er ég alltaf með hálfan hugann við leigusíðurnar hérna að skyggnast um eftir stærra húsi þar sem allir eiga sitt eigið herbergi, helst gestirnir líka. Erum búin að skoða tvö hús upp í Hinnerup en fengum svo hvorugt þeirra... enda aðeins of dýr fyrir okkur. Er svo búin að senda fyrirspurnir um tvö hús, eitt hér rétt hjá okkur í Tilst og hitt við ströndina í Studstrup, rétt norðan við Skæring. Ætti samt ekkert að vera að hugsa um þetta núna en svona er ég bara, alltaf komin einu skref á undan sjálfri mér.


Hér er bolti, um bolta, frá bolta, til bolta

Var að lesa frétt á mbl áðan um Kolbein Sigþórsson, litla bróður hans Sissa. Strákurinn bara búinn að fá tilboð frá ARSENAL, ekkert smá flott hjá 17 ára gutta! Eyþór Atli heldur ekki vatni yfir þessu öllu saman og ætlar sko að vera staddur í þessum sporum eftir 7 ár, ekki spurning!

Annars eru samantekin ráð í gangi um að koma litla þrjóska Valsaranum í boltann líka og okkur er búið að takast að dobbla hann á eina æfingu og hann er búinn að spila einn leik... og er tilbúinn að prófa aðeins meira. Mamma er meira að segja að hjálpa til og er búin að fá innkaupalista frá honum um hvað hann vanti helst í sambandi við fótboltann. Hann bíður nú spenntur og kíkir í póstkassann á hverjum degi til að athuga hvort pósturinn sé búinn að stinga fótboltaskóm, legghlífum, markmannshönskum eða fótboltasokkum í póstkassann.


Veikindi

Gærkvöldið var bara mjög notalegt. Guðrún Björk á móti bauð okkur skvísunum á Stavnsvej í mat í tilefni af 35 ára afmælinu sínu og við fengum rosalega góð kjúklingaspjót og tilheyrandi. En svo varð ég bara veik í nótt... og er búin að liggja í rúminu drulluslöpp í allan dag. Eyþór Atli hringdi svo í mig klukkan ellefu úr skólanum því honum leið líka eitthvað illa. Svo nú liggjum við mæðginin bæði í rúminu og höfum það ekkert of gott... hundfúlt!

Annars stendur fótboltastrákurinn minn sig bara þrusuvel eins og alltaf og byrjaði tímabilið með trompi. Hann er búinn að keppa fjóra leiki og skora níu mörk :-) Það versta er að hann á örugglega eftir að setja okkur á hausinn því hann er sko atvinnumaður í fótbolta og er búinn að semja við okkur um greiðslu fyrir hvert mark sem hann skorar í leik... og svo skorar hann bara og skorar, jæks!


Læri, læri, lær

Klukkan er níu og við Guðlaug mættar galvaskar á Stats Bibliotekið með skólabækur og Herbalife te okkur til halds og trausts. Nú á bara að massa lærdóminn í dag þar til synir okkur fjórir keppa í fótbolta seinnipartinn. Annars er bara allt við það sama, sól og rigning til skiptis þessa dagana og allir voða uppteknir í skólum og vinnum. Fjögra daga frí framundan á ekki morgun heldur hinn þar sem Dönum finnst mjög gaman að taka svona auka frídaga þegar það koma rauðir dagar eins og Uppstigningardagur. Sem sagt frí fimmtudag, föstudag, laugardag og sunnudag. Ég ætla nú reyna að vera dugleg að læra einhvern af þessum dögum þó að Hilmar og strákarnir verði í fríi. Það er bara harkan sem gildir núna!

Lokaritgerðin

Í skólanum, í skólanum, er skemmtilegt að vera.... Ég er bara rosalega ánægð með afrakstur dagsins hingað til. Ég er LOKSINS BYRJUÐ á þessari blessaðri lokaritgerð minni sem er búin að standa í mér eins og risastór kartafla í allan vetur. Búin að breyta ritgerðarefninu eina ferðina enn og er aftur komin inn á mannauðsstjórnunarlínuna eins og í Bachelor-ritgerðinni. Ég er sem sagt komin í hring og ég held að ég sé loksins búin að finna mig eftir langa og villuráfandi leit í mörg ár :-)

Þetta verður lögfræðiritgerð um mismunun í starfsmannaráðningum vegna kyns, þjóðernis eða trúarbragða. Ætla að skrifa um mál sem hafa farið fyrir Evrópu-dómstóla vegna slíkrar mismununnar. Ég vona að þetta sé endanleg ákvörðun hjá mér því ég er alla vegana mjög sátt við efnið og finnst það spennandi. Ég er meira að segja komin með besta fáanlega leiðbeinandann í þessu efni. Hann heitir Matthew Elsmore og er enskur lögfræðingur sem kenndi mér "Law of the single market" (og er mega sætur líka). Búin að byggja upp beinagrind að mastersritgerðinni og get meira að segja troðið inn í hana "Masculinity versus Femininity" ritgerðinni minni sem ég skrifaði um daginn. Gaman, gaman :-)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Lífið í Løgten

Höfundur

Eydís Hauksdóttir
Eydís Hauksdóttir
Við hjónin búum ásamt sonum okkar tveim í Danmörku. Við fluttum til Árósa í júlí 2005 í kjölfarið af útskrift minni sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Ég byrjaði svo haustið 2005 í meistarnámi í lögum og viðskiptum Evrópusambandsins sem ég lauk í febrúar 2008. Nú vinn ég hjá indversku vindmyllufyrirtæki sem heitir Suzlon Wind Energy A/S. Hilmar er að vinna hjá frábæru fyrirtæki sem heitir Pressalit Care við að smíða sjúkrarúm og alls kyns rafknúna hluti fyrir fatlaða og einnig fyrir leikskóla. Synir okkar eru Eyþór Atli 11 ára fótboltakappi og Valur Snær 9 ára skáti.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • slum-dog-millionaire
  • slum-dog-millionaire
  • paskaegg
  • tehachapi wind farm
  • subway-eatfresh

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband