Færsluflokkur: Bloggar

Broddgöltur

Hér varð uppi fótur og fit í nótt. Ég vaknaði við eitthvað skrjáf og skrítin hljóð og læddist að svalahurðinni því ég hélt fyrst að það væri enn einu sinni kominn bófi að stela hjólunum okkar Bandit  Þá sá ég eitthvað dýr, hálft ofan í ruslapokanum og það var svo mikið myrkur að ég var ekki viss hvort þetta var broddgöltur, moldvarpa eða risastór rotta. Ég vakti Hilmar og við náðum í vasaljós og lýstum upp dýrið og sáum þá að þetta var broddgöltur. Um leið og hann uppgötvaði okkur, breyttist hann í kúlukaktus og rúllaði sér upp í bolta. Ferlega fyndið að sjá þetta... hausinn og fæturnir hurfu alveg inn í kúluna og allir broddarnir stóðu beint út í loftið LoL Hilmar setti á sig hanska til að stinga sig ekki og við tókum hann inn og settum hann í búr til að geta sýnt strákunum hann þegar þeir vöknuðu. Þeim fannst þetta rosa spennandi og vildu náttúrulega bara eiga hann sem gæludýr. Hann er svo fyndinn og mikið krútt og í hvert sinn sem hann fattar að einhver sé að horfa á sig, breytist hann í myndastyttu. Hann er mjög góður í svona "play dead" því hann hreyfir ekki einu sinni augun eða neitt í margar mínútur þegar hann gerir þetta.

KúlukaktusAlgjört krútt

Broddgeltir eru algjör næturdýr sem ferðast um á nóttunni til að afla sér matar og sofa svo í hreiðrunum sínum á daginn. Það eru víst einhvers konar flugur sem leggjast á þá ef þeir eru á ferli í dagsbirtu og verpa eggjum á þá. Við ætlum því að bíða fram á kvöld og sleppa honum þá svo hann geti rölt óhultur heim til sín í myrkrinu Smile


Efnilegur leikari

Vá hvað dagarnir fljúga áfram, helgin nýbúin en strax kominn fimmtudagur og alveg að koma aftur helgi. Erum að spá í að skreppa í innkaupaferð á grensuna í Þýskalandi um helgina og versla doldið vel inn fyrir sumarfríið og gestina... sem styttist óðfluga í Joyful  Á sunnudaginn er svo víst 17. júní og okkur er boðið í SS-pylsupartý með Myllu pylsubrauðum í garðinum hjá Hildi og Sigfúsi, hæ, hó, jibbí jei og jibbí jei.... Wizard

Mánudagurinn 18. júní er svo stóri flutningsdagurinn. Þá verður öll búslóðin okkar flutt inn í kjallarann á Blishønevej í Studstrup og geymd þar þangað til við fáum húsið afhent þann 1. júlí. Já takk, þið megið alveg koma að bera kassa á mánudaginn Wink 

Annars hefur vikan bara verið frekar tilbreytingasnauð, sólin að vísu búin að minnka talsvert og hitastigið hefur lækkað aðeins... en það er líka allt í lagi svona í nokkra daga. Í gær hringdi kennarinn hans Vals Snæs í mig og bað mig að fara með hann til læknis því hann hefði slasast í skólanum Frown Ég náði í litla leikarann minn sem var víst búinn að vera með hökuna fasta við bringuna í tvo tíma vegna þess að hann hafði fengið hnykk á hálsinn og gat ekki lyft höfðinu upp. Hann gekk eins og gamall maður með krippu og var búinn að fara í skoðun hjá skólahjúkrunarfræðingnum og sjö kennarar voru búnir að sturma yfir honum þegar ég kom. Ég þakkaði þeim pent fyrir og gekk með stórslasaða barnið mitt út á bílaplan og benti honum á fugl sem var fljúga fyrir ofan okkur... hann var snöggur að líta upp og steingleymdi á sama augnabliki að hann gæti ekki lyft höfðinu... held hann sé mjög efnilegur því þetta er í þriðja sinn á þessu skólaári sem ég er send með hann á slysó og það er ekkert að honum Whistling  Þetta er kannski skýringin á að Umferðarstofa féll fyrir honum þegar þeim vantaði auglýsingastjörnu Wink

Umferðarstofa 4Umferðarstofa 3Umferðarstofa 2


Endalaust sumarfrí

Þetta eru voða notalegir dagar núna, dag eftir dag sól og blíða og allir svo brosandi, glaðir og hamingjusamir Grin Ég fór í smá stelpuboð til Hildar vinkonu í Harlev á föstudagskvöldið. Mjög kósý og skemmtilegt boð og við sátum frá klukkan átta um kvöldið til tvö um nóttina úti í garði hjá henni við kertaljós og mauluðum nasl og sötruðum ískalt hvítvín með... bara æði Sideways

Á laugardagsmorguninn kom svo Yuriy vinur Vals Snæs til Div_JomfruAneGadeokkar í sólarhringspössun og við skelltum okkur þá í dýragarðsferð til Álaborgar. Við höfum aldrei komið til Álaborgar áður og það var bara rosalega gaman og mjög flottur og skemmtilegur miðbær. Þarna var göngugata eða svo kallað Strik eins og í flestum bæjum Danmerkur og litlar steinlagðar hliðargötur út úr Strikinu. Ein hliðargatan heitir "Jomfru Ane Gade" og beggja vegna götunnar, sem var mjög þröng, voru raðir af veitingahúsum og pöbbum og fyrir utan hvern stað voru sólpallar með litlum krúttlegum girðingum og borðum til að borða úti. Við völdum okkur lítið steikhús og borðuðum úti á pallinum sem var bara mjög ljúft Joyful 

Í dag var svo heitasti dagurinn hingað til á árinu 2007 W00t Mælirinn sýndi 32 gráður í skugga og eftir að hafa hent ofan í nokkra kassa í viðbót brunuðum við á ströndina sem er handan við Bambaskóginn. Þar var gjörsamlega stappað af fólki og umferðarteppa í gegnum allan skóginn, bæði þegar við komum og fórum. En það var alveg þess virði að láta sig hafa það því það var svo geðveikt gott að kæla sig niður í sjónum. Hlökkum núna ennþá meira til að flytja í strandhúsið og geta bara rölt niður á strönd Cool


Það er svo heitt!

Já, já, blíðan heldur bara áfram hér. Hitinn fór upp í 28 gráður í dag og ég var eitthvað að lufsast við að henda ofan í einn og einn kassa á milli þess sem ég lá örmagna af hita úti í garði. Var búin að smyrja sólarvörn á mig í bak og fyrir... nema náttúrulega á efri hlutann á bakinu þar sem hendurnar á mér ná nú ekki þangað. Gleymdi mér svo við að skrifa flutningstilkynningar úti í sólinni og snéri náttúrulega bakinu að sólinni á meðan :( Nú er bakið svo brunnið að mér líður eins og skinnið sé einu númeri of lítið og finn til við hverja hreyfingu. Ekki að ég sé neitt að kvarta sko, hehe, finnst þetta veður bara svo geggjað :)

Og börnin mín já, Anna frænka var eitthvað að kvarta yfir að ég virtist ekkert eiga nein börn lengur í blogginu mínu. Eyþór Atli var sem sagt heima hjá mér í dag með smá hitavelling og Valur Snær hjólaði í skólann með blátt hársprey í hárinu sem ég keypti í Bilka í gær. Svo hjólaði hann aftur heim eftir hádegi og var þá orðinn blár í framan því hárspreyjið var búið að leysast upp í hitanum og leka yfir allt andlitið á honum... svo greyið var ekki sólbrúnn í framan heldur sólblár ;)

Við nenntum svo ekkert að elda kvöldmat seinni partinn og rúlluðum því niður í bæ, komum við á Pizza Hut og tókum pizzur með okkur á ströndina. Vorum með nestiskörfu með okkur með teppi, drykkjum, handklæðum og sundfötum og strákarnir busluðu alsælir í sjónum í kvöldsólinni.


Sól og blíða á Grundlovsdag

Aftur byrjuð að læra... loksins. Fór og hitti nýja leiðbeinandann minn í morgun, hann Matthew litla Elsmore, og það var bara mjög gagnlegt að fá klukkutímafund með honum til að leggja línurnar. Hann benti mér á ýmsar leiðir til að koma þessu efni frá mér og setti mér svo fyrir tvö verkefni sem ég þarf að klára fyrir næsta fund með honum eftir tvær vikur. Mér veitir sko ekki af svona aðhaldi til að þetta fari nú eitthvað að ganga hjá mér Errm

Það er enn bara blíða og á að vera áfram næstu daga, 26 stiga hiti og sól og þrumuveður til skiptis. Í gær var Grundlovsdag hér í Danmörku og allt lokað og allir í fríi. Við hjónin vorum því bara dugleg og skelltum niður í enn fleiri kassa svo það er að verða ansi tómlegt í kringum okkur, allar hillur auðar og engar myndir á veggjum lengur. Verðlaunuðum okkur svo seinni partinn og fengum okkur göngutúr á Strikinu í góða veðrinu og hvíldum okkur svo á útikaffihúsi í Latínuhverfinu sem var bara ljúft Heart

Á mánudagskvöldið var okkur boðið í mat til Guðlaugar og mömmu hennar sem er í heimsókn hjá henni núna. Rosa gott að fá grilluð sparerips og ofnbakað rótargrænmeti, jammííí Joyful Sötruðum svo Corona með sítrónu og spjölluðum langt fram eftir kvöldi.


Veislustand

Hmmm... veit ekki alveg hvað ég ætla að skrifa núna því það er svo sem ekkert nýtt í fréttum. Hér er bara verið að pakka jafnt og þétt í kassa og spenningurinn magnast með hverjum deginum. Húsgögnin hafa ekki selst ennþá en við erum búin að fá kaupanda af uppþvottavélinni og við ætlum að lána þvottavélina okkar í eitt ár svo nú þvæ ég eins og berserkur til að birgja mig upp af hreinum þvotti svo ég geti verið þvottavélalaus í ca. þrjár vikur.

Á föstudagskvöldið fórum við í grillveislu heima hjá Anne Sofie, bekkjarsystur Eyþórs Atla. Hún býr á bóndabæ rétt fyrir utan Tilst og það er orðin hefð á hverju vori að halda sumarhátíð fyrir allan bekkinn og fjölskyldur þeirra. Þetta var mjög skemmtilegt og margir af foreldrunum sögðu okkur að strákanna yrði sárt saknað þegar við yrðum flutt yfir í hinn endann á borginni. En það er aldrei að vita nema við bjóðum kannski nokkrum af krökkunum í heimsókn einhverja helgina í ágúst eða september því Eyþór Atli á svo marga góða vini í þessum bekk.

Í gærkvöldi komu Søren, Yuliya og Yuriy í matarboð til okkar og urðu ekkert smá glöð þegar við sögðum þeim frá nýja húsinu. Þau búa nefnilega í Skæring sem er næsta hverfi við Studstrup svo það verður miklu styttra á milli okkar heldur en núna og strákarnir fara í Skæring skóla eins og Yuriy. Svo horfðum við náttúrulega á landsleikinn í sjónvarpinu á milli Danmerkur og Svíþjóðar og erum enn að jafna okkur eftir þennan stórfurðulega endi sem gerðist 30 sekúndum fyrir leikslok. Staðan þá var 3-3 og einn af dönsku landsliðsmönnunum kýldi einn Svíann í magann og fékk rautt spjald og víti dæmt á sig... sem varð til þess að blindfullur áhorfandi hljóp inn á völlinn og reyndi að kýla dómarann. Dómararnir urðu svo reiðir að þeir dæmdu Dönum tap og tóku af þeim öll þrjú mörkin svo leikurinn endaði 3-0. Þessi aumingja áhorfandi er nú á öllum forsíðum blaðanna í dag og er talinn í lífshættu því öll danska þjóðin er vægast sagt brjáluð yfir því sem hann gerði og kostaði þá sæti í EM.

Í dag er svo búin að vera þvílík blíða og 25 stiga hiti og við erum bara búin að vera að chilla hérna út í garði í allan dag og erum orðin ein risastór brunarúst...


Þrjár vikur í flutning

Tíminn flýgur áfram og í dag eru nákvæmlega þrjár vikur í 20. júní, daginn sem við flytjum af Stavnsvej. Þá fer búslóðin í geymslu í tíu daga í strandhúsinu og við förum í geymslu upp í Hinnerup. Þann 1. júlí fáum við svo húsið afhent og getum byrjað að koma okkur fyrir :) Við erum meira að segja búin að pakka niður í tvo kassa svo þetta er allt saman að byrja. Það er verst hvað ég er tjúnuð yfir þessu öllu saman því ég sef ekkert á nóttunni :( En Þóra nuddari ætlar að taka mig í gegn í föstudaginn og vonandi tekst henni að róa mig niður svo ég fái nú einbeitinguna og svefninn til baka. Lærdómurinn er líka fokinn út í veður og vind og ég man ekki lengur hvað ég er að skrifa um...

Að öðru leyti gengur lífið sinn vanagang hjá restinni af fjölskyldunni. Strákarnir kepptu í fótbolta í gær og eiga að keppa aftur í dag. Hilmar keppti meira að segja líka í fótbolta í gær á einhverju fyrirtækjamóti svo ég fór ein með litlu guttana að keppa og þurfti að aka alls 110 kílómetra fram og til baka á völlinn sem var einhvers staðar lengst út í rassgati. Næst á dagskrá er svo foreldraviðtal hjá Val Snæ í dag og læknisskoðun hjá honum á föstudaginn. Svo er sumarhátíð hjá bekknum hans Eyþórs Atla á föstudagskvöldið heima hjá bekkjarsystur hans sem býr á sveitabæ fyrir utan Tilst og mig er farið að gruna að ég endi líka ein með guttana þar því Kiddarnir á Stavnsvej eru að plana einhverja bjórferð til Álaborgar á sama tíma...


Tinni Túrbó

Hvítasunnuhelginni lokið og aftur kominn venjulegur virkur dagur. Veðrið var ekkert spes um helgina en það skipti svo sem engu máli þar sem við vorum bara að stússast í flutningum með Guðlaugu og Sissa síðustu tvo daga. Nú eru þau flutt í nýja fallega húsið sitt í Nørring svo maður er aðeins búin að fá smjörþefinn af því hvað þetta verður gaman hjá okkur.

Ein gleðin í viðbót við flutninginn er sú að þá getur Tinni gamli flutt aftur til okkar. Hann er búinn að vera í pössun hjá mömmu og pabba í tvö ár þar sem við megum ekki vera með dýr í húsnæðinu sem við höfum núna. Hann var svaka grannur, stæltur, kolsvartur og tígurlegur eins og pardus þegar við fluttum hingað út... en nú er hann búinn að vera í svo góðu yfirlæti hjá afa sínum og ömmu að hann líkist helst Garfield núna, dragandi ístruna eftir jörðinni, hehe. Svo að um leið og við fáum húsið verður Tinna skutlað upp í næstu flugvél og við vonum að hann fái ekki áfall þegar hann fer út í garð í nýja húsinu. Það koma víst alls kyns skógardýr í heimsókn þangað eins og t.d. kanínur, hérar, íkornar, broddgeltir og meira að segja bambar :-)


Pinse

Nú er hvítasunnuhelgin eða pinseweekend eins og hún er kölluð hér í Danaveldi. Allir í fríi og við erum bara búin að hafa það nokkuð náðugt. Strákarnir skruppu í afmælisveislu frá 17-20 á föstudaginn og við Hilmar gripum tækifærið og skelltum okkur í bæjarferð. Langt síðan við höfum farið bara tvö í bæinn og rölt um Latínuhverfið. Það er svo mikið af litlum, skemmtilegum og skrítnum búðum þar með svona öðruvísi hluti. Keyptum okkur flottar diskamottur fyrir nýja húsið í einni búðinni, orkustein í búðinni Ametyst og svo fullan poka af Jelly Belly nammi í þriðju búðinni. Enduðum svo á að fá okkur gott að borða á ítölsku útiveitingahúsi og skáluðum fyrir strandhúsinu :)

Í gær fórum við svo í bíó ásamt Sissa og krökkunum og sáum Pirates of the Carabean III. Sátum í bíósalnum í heila þrjá tíma án hlés og mér finnst það allt of langt... það hefði alveg mátt klippa þetta aðeins meira niður eða skipta þessu í tvær bíómyndir. Hilmar og Sissi sofnuðu báðir en krökkunum fannst þetta rosa gaman og byrjuðu að skylmast eins og sjónræningjar um leið og þau komu út úr bíóinu. Eftir bíóferðina fórum við Hilmar með strákana í göngutúr í botaniske have í Marselíuborgarskógi. Fullt af fallegum og skrítnum trjám þar og margar litlar tjarnir með alls kyns fuglum, fiskum og skjaldbökum.


The law of attraction

Lífið er svo skrítið stundum og fullt af skrítnum tilviljunum... eða eru þetta kannski engar tilviljanir ;) Fyrir ca. 3 vikum setti ég mynd af fallegu húsi sem ég fann á netinu á desktoppið á tölvunni minni og í hvert skipti sem ég sá þetta hús... sem var auðvitað oft á dag... reyndi ég að laða það til mín og gerði það þar með að draumahúsinu mínu. Og hvað er búið að gerast núna? Ég er að fara að flytja inn í það eftir mánuð! Við vorum búin að skoða tvö önnur hús sem okkur leist bara nokkuð vel á... en fengum þau ekki og hvorugt þeirra vakti upp hjá okkur sömu tilfinningu og strandhúsið góða. Um leið og við sáum það og gengum inn í það vorum við bara gagntekin af þeirri tilfinningu að þetta væri nákvæmlega draumahúsið okkar. Nokkrum klukkutímum áður en við fórum að skoða það, dró ég eitt spil á "spámaður.is" og spilið var númer tvö í stöfum. Talan tveir á spilinu var skrifuð með rómverskum tölum svo þar blasti við mér talan ellefu... strandhúsið okkar stendur við Blishønevej 11. Lýsingin í spilinu var eitthvað á þá leið að ég og félagi minn þyrftum að taka stóra ákvörðum um næsta skref í lífi okkar og breytingarnar yrðu okkur og öðrum sem tengjast okkur til góðs. Áðan var ég að fá sendingu með póstinum frá H&M sem ég pantaði fyrir mörgum vikum og var búin að steingleyma hvað væri í pakkanum. Þegar ég opnaði hann voru í honum strandföt á báða strákana og meira að segja strandskór til að vaða út í vatnið... hmmmm... spúkí!

Í gærmorgun setti ég nýja mynd á desktoppið mitt og hún er af fullt af pengingaseðlum og í hvert skipti sem ég horfi á hana segi ég við sjálfa mig að peningarnir flæði inn í líf mitt, þeim bara rignir bókstaflega yfir mig (hehe, veit ykkur finnst ég stórskrítin núna). En svo dró ég aftur eitt spil hjá spámanninum góða og þar stóð að nægtir myndu flæða inn í líf mitt. Hilmar kom svo heim úr vinnunni í gær og tilkynnti mér að hann hefði fengið launahækkun... og hvað gerðist fyrir mig í gær... ákvað ég ekki upp úr þurru að fara að selja alls kyns húsgögn og heimilistæki sem ég hef ekki þörf fyrir. Aldrei áður hefur mér dottið í hug að selja neitt sem ég ætti, hef alltaf bara hent því þegar ég kaupi mér nýtt. Áðan kom pósturinn með bréf frá leigumiðluninni þar sem þeir sögðu að þeir hefðu móttekið uppsagnarbréfið frá okkur, væru búnir að heyra frá nýja leigjandanum sem ég fann fyrir þá og myndu endurgreiða okkur hluta af leigutryggingunni sem við greiddum þeim fyrir tveim árum og samsvaraði þriggja mánaða leigu.

Trúið þið nú að hugarorkan virki???


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Lífið í Løgten

Höfundur

Eydís Hauksdóttir
Eydís Hauksdóttir
Við hjónin búum ásamt sonum okkar tveim í Danmörku. Við fluttum til Árósa í júlí 2005 í kjölfarið af útskrift minni sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Ég byrjaði svo haustið 2005 í meistarnámi í lögum og viðskiptum Evrópusambandsins sem ég lauk í febrúar 2008. Nú vinn ég hjá indversku vindmyllufyrirtæki sem heitir Suzlon Wind Energy A/S. Hilmar er að vinna hjá frábæru fyrirtæki sem heitir Pressalit Care við að smíða sjúkrarúm og alls kyns rafknúna hluti fyrir fatlaða og einnig fyrir leikskóla. Synir okkar eru Eyþór Atli 11 ára fótboltakappi og Valur Snær 9 ára skáti.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • slum-dog-millionaire
  • slum-dog-millionaire
  • paskaegg
  • tehachapi wind farm
  • subway-eatfresh

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband