Færsluflokkur: Bloggar

Sótsvartur sótari

Það gerðist dálítið spaugilegt atvik hérna í Stuðstrumpalandi í gær. Ég var nýbúin að vista síðustu bloggfærslu hérna á síðunni þar sem ég var að tuða yfir seinvirkum póstsendingum og hvítum leggjum. Ég sat sem sagt hálfnakin úti á palli og var að skvetta meira vatni á fæturna á mér þegar dyrabjallan hringdi allt í einu. Mér dauðbrá náttúrulega þar sem ég var svona fatalítil og ætlaði fyrst ekkert að fara til dyra... en datt svo allt í einu í hug að þetta væri kannski pósturinn með sendinguna sem ég var að bíða eftir. Svo ég stökk á fætur, henti yfir mig topp sem ég var með við hliðina á mér, hljóp inn um svalahurðina og reyndi um leið að troða mér í gallapils sem ég greip á hlaupunum. En þar sem ég var svo blaut á fótunum... og gallapilsið í þrengri kantinum... kom ég því ekki upp lærin á mér og flaug á hausinn með það vafið utan um hnéin á mér...

Úff, en mér tókst svo að skríða á fætur og þvinga pilsið upp með miklu átaki og komst loks móð og másandi að útidyrahurðinni. Ég reif upp hurðina og fyrir utan stóð svartklæddur maður með hendurnar allar í svörtu sóti og megnið af skallanum og kinnunum líka. Ég glápti á hann eins og hann væri geimvera og það eina sem komst að í hausnum á mér var af hverju pósturinn væri ekki í rauðu fötunum sínum í dag! Svo kynnti hann sig og sagðist vera sótari og væri mættur til að hreinsa skorsteininn hjá mér. Mér fannst þetta eitthvað svo fyndið að ég fór bara að flissa þegar ég sá að hann hélt líka að svörtum kústi og var eins og klipptur út úr bíómynd. Ég sagði honum svo bara að gera það sem hann þyrfti að gera og fór inn og reyndi að ná tökum á hlátrinum svo hann héldi ekki að ég væri geðveik. Fékk svo vægt taugaáfall mínútu seinna þegar Rebbi trylltist út í garði þegar hann sá þennan kolsvarta mann uppi á þakinu á húsinu. Í öllum látunum gleymdi ég að hann væri bundinn úti í garði og þurfti að stökkva út og hanga á honum meðan hann þeytti mér fram og aftur um garðinn allan tímann sem sótarinn var á þakinu.... veit ekki alveg hvað þessi sótari hefur eiginlega haldið um mig  Undecided


Sólbað

Loksins kom sumarið aftur til Danmerkur... passlega þegar allir gestir voru farnir, alveg ótrúlegt! Það er búin að vera þvílík blíða hér undanfarna daga, glampandi sól og 27-28 gráður. Ég er búin að liggja og grilla mig úti á palli dag eftir dag og er hreinlega að breytast í brunarúst... samt fer ég alltaf aftur út um leið og ég vakna ;-) Týpískur Íslendingur sem heldur að hann sé að missa af einhverju ef hann sogar ekki í sig hvern einasta sólargeisla sem hann sér. Nú er aðalmarkmiðið að verða brún á fótunum... tek nefnilega aldrei neinn lit þar... og ég er að nota aðferð sem Linda vinkona kenndi mér þegar hún var hérna um daginn. Ég sem sagt skvetti vatni á fæturna á mér á 10 mínútna fresti og læt sólina þurrka það... og svei mér þá, ég held þetta sé bara farið að virka :-)

Annars er allt fínt að frétta hér, Hilmar byrjaði að vinna á mánudaginn svo hann er kominn inn í daglega rútínu aftur og farinn að fara snemma að sofa á kvöldin. Ég ligg bara í sólbaði á milli þess sem ég sinni strákunum sem eru frekar eirðarlausir og orðnir spenntir að byrja í skólanum eftir viku. Þá kynnast þeir vonandi einhverjum krökkum sem þeir geta leikið við eftir skóla. Í dag er líka akkúrat ein vika síðan við Hilmar byrjuðum í átaki og erum bara búin að borða hollan mat síðan. Við fundum líka fína líkamsræktarstöð í fimm mínútna fjarlægð frá okkur og erum búin að mæta fjórum sinnum þangað og taka vel á því. Við vigtuðum okkur og mældum alls kyns sentimetra á síðsta miðvikudag þegar átakið byrjaði og ég er voða spennt að mæla allt aftur í dag og sjá árangurinn eftir fyrstu vikuna ;-)

Rebbi er líka í pössun hjá okkur, Sheaffer hundurinn sem Guðlaug og Sissi eiga, svo við fáum líka góða hreyfingu á hverju kvöldi þegar við förum í göngutúra með hann og leyfum honum að busla í sjónum. Nú bíð ég bara spennt eftir Herbalife sendingunni sem Linda sendi mér fyrir 9 dögum frá Íslandi en hún er ekki ennþá komin. Ég er farin að halda að tollararnir hafi rifið hana upp og fundist allt þetta hvíta duft eitthvað grunsamlegt.... En ég vona nú ennþá það besta og sit fyrir póstinum á hverjum degi þegar hann kemur á litlu sætu vespunni sinni. Ég get kannski prófað að setja nagla á götuna ef hann fer ekki að koma með eitthvað til mín. Ég er nefnilega líka að bíða eftir tveim öðrum sendingum frá H&M... skólafötum sem ég pantaði á strákana og annarri sem Linda pantaði á sína stráka. Jæja, best að hætta þessu blaðri hér á blogginu og fara að vökva betur fæturna á mér.... Adios amigos!


Ein í kotinu

Nú erum við búin að búa í einn mánuð í strandhúsinu í Studstrup og erum nú að prófa að vera þar ein í fyrsta skipti eftir 30 daga gestagang. Það er bara mjög notalegt og rólegt hjá okkur núna og sólin farin að skína. Það er búið að vera mikið líf og fjör síðasta mánuðinn og við búin að gera margt og mikið með öllum gestunum okkar. Ég held að það sé alla vegana á hreinu að við förum ekki í fleiri skemmtigarða næstu 10 árin eða svo.... Wink

Annars er bara frábært að allt þetta yndislega fólk skuli hafa komið hingað að heimsækja okkur og gott að eyða smá tíma með fólkinu sem okkur þykir vænt um. Suma gestina höfðum við ekki hitt í 9 mánuði, aðra í eitt og hálft ár og suma höfðum við ekki hitt í heil tvö ár... Svona er þetta skrítið þegar maður býr í útlöndum Errm

Gestagangurinn endaði sem sagt þannig að Linda og Gunnar kláruðu vikuna sína hjá okkur þann 25. júlí og við ókum með þeim langleiðina til Billund, eyddum síðasta deginum þeirra með þeim þar, kvöddum þau við mikinn söknuð allra Crying ...og fórum svo í Ljónagarðinn í Givskud að hitta síðasta hollið af gestunum. Þar urðu mikil fagnaðarlæti þegar við hittum Helgu, Adda, Andreu Ósk, Báru og Ágúst Aron Grin Við ókum svo með þau á eftir okkur heim í strandhúsið seint um kvöldið og þau voru hjá okkur í fimm daga. Það helsta sem við gerðum með þeim var að fara í Djurs Sommerland og svo var það vanalegi rúnturinn um Árósa, Strikið, Latínuhverfið, Bruuns Galleri og bambaskógurinn góði sem er alltaf jafn vinsæll. Við borðuðum líka fullt af góðum mat og nutum svo bara samverunnar.

Eftir að við kvöddum síðustu gestina á mánudaginn erum við fjölskyldan bæði búin að vera heima hjá okkur í slökun og þess á milli í alls kyns útréttingum út um allan bæ því ýmislegt hefur setið á hakanum síðan við fluttum. En nú er allt frágengið og við erum að byrja að koma rútínu aftur í gang á heimilinu, enda ekki seinna að vænna. Hilmar byrjar að vinna eftir sumarfrí á mánudaginn og strákarnir byrja svo í nýja skólanum sínum þann 15. ágúst. Þá byrja ég líka á fullu aftur í ritgerðinni minni sem ég stefni nú á að skila í október... eins gott að það takist nú svo ég geti byrjað að vinna fyrir jól Woundering Annars áttum við mjög góðan dag í gær, fórum í bæinn og strákarnir keyptu sér smá skóladót og við Hilmar fórum bæði í klippingu og litun svo við erum með svakalega flotta hausa bæði tvö Halo Enduðum svo daginn á að fara í prufutíma í líkamsrækt... því nú veitir ekki af því að fara að taka sig rækilega í gegn eftir þetta skemmtilega sumarfrí þar sem allt hefur verið leyft í mataræði... og þá meina ég bókstaflega allt!


Strandhúsið

Loksins er ég búin að taka myndir af húsinu og koma þeim inn í tölvuna. Ég set smá hér í dagbókina og svo er hægt að sjá fleiri myndir í júlí möppunni hér neðar á skjánum. Við erum mjög ánægð hér og alveg að tapa okkur í öllu þessu plássi þar sem við erum nú ekki vön að hafa allt þetta rými í kringum okkur  Sideways  Garðurinn er æðislegur og við höfum loksins getað eytt smá tíma í honum síðustu daga þar sem ræst hefur töluvert úr veðrinu síðustu vikuna. Við erum líka búin að fara nokkrum sinnum niður á strönd sem er bara í tveggja mínútna göngufjarlægð frá húsinu. Þetta er lítil og krúttleg strönd með geggjuðu útsýni yfir Djurslandskaga... svo nú vantar okkur bara bát eins og allir hér í götunni eiga Cool  Adios amigos....Blishønevej 11Kvöldverðarhornið

Gæster nummer tre

Hér er alltaf líf og fjör og fullt af fólki Smile Addi bróðir og fjölskylda sigldu í burtu frá okkur á miðvikudaginn eftir fimm daga heimsókn í Studstrup. Við fórum með þeim í Ree Park sem er mjög flottur og skemmtilegur dýragarður í Ebeltoft sem er um hálftíma akstur frá okkur. Toppurinn af deginum var að leika við Lemúrana frá Madagaskar sem voru lausir á apaeyjunni og hoppuðu upp á bakið á okkur og sleiktu ísinn af fingrunum á strákunum. Algjör krútt með risastór augu og við biðum bara eftir að þeir myndu dansa fyrir okkur og syngja... "I like to move it, move it... Tounge  Það helsta sem við gerðum hina dagana var að kíkja á Strikið og Latínuhverfið og svo var farið á ströndina að veiða krabba og busla.

Einar og Hjördís sem búa í Horsens kíktu svo í kaffi til okkar eftir hádegi á miðvikudeginum og um kvöldið fengum við svo Lindu vinkonu og fjölskyldu til okkar. Þau ætla að vera hjá okkur í viku og á fyrstu tveim dögunum þeirra erum við búin að afreka eina ferð í Lególand og einn rúnt um bambaskóginn. Bambarnir voru mjög gráðugir í dag og voru fljótir að hakka í sig birgðirnar af eplum sem við tókum með okkur. Stefnan er svo tekin á bæjarrölt í miðbænum á morgun og líklega "Den gamle by" á sunnudaginn.Einar, Hjördís og börnFallega fjölskyldan


Gestir í strandhúsinu

Loksins, loksins fann ég tíma til að blogga smá hérna. Mikið búið að vera að gera síðustu tvær vikurnar síðan við fluttum í strandhúsið. Við erum rosalega ánægð hér og svífum bara á draumaskýi alla daga. Eva systir fór til Íslands í gær ásamt sonum sínum tveim. Það er búið að vera frábært að hafa þau hérna hjá okkur þar sem þau voru mjög dugleg að hjálpa okkur við að koma okkur fyrir á milli þess sem við skruppum út að gera eitthvað skemmtilegt. Veðrið hefur að vísu ekki verið upp á marga fiska en við erum samt búin að fara í Lególand, Djurs Sommerland og Tivoli Friheden við mikinn fögnuð drengjanna fjögra. Svo erum við líka búnar að eyða nokkrum dögum á Strikinu og í verslunarmiðstöðvunum í Árósum... við ekki eins mikinn fögnuð drengjanna Wink

Addi bróðir og Oddný mágkona sem búa í Noregi komu til okkar í dag ásamt sínum tveim guttum og þau verða hjá okkur í fimm daga. Við vonum að þau fái skárra veður en síðustu gestir og við ætlum að byrja á því að skreppa með þeim í Djurs á morgun þar sem það er ágætis veðurspá fyrir morgundaginn og vonandi hægt að busla eitthvað í vatnsleikjagarðinum SmileKrúttlega litla fjölskyldanSystkinin


Stuðstrumpaland

180px-Smurflogo2Þá er komið að því, fáum strandhúsið góða í Studstrup í fyrramálið klukkan 10, jibbí!!! Við erum búin að eiga yndislega tíu daga upp í Norring hjá Guðlaugu, Sissa og börnum og allt búið að ganga eins og í lygasögu Wink Ástarþakkir fyrir það dúllurnar mínar, þið eruð bara best InLove Svo byrjar bara fjörið um helgina við að koma öllu fyrir, raða upp húsgögnum og taka upp úr kössum. Eva systir ætlar að koma og hjálpa okkur og hún og strákalingarnir hennar verða svo hjá okkur til 13. júlí sem verður bara æðislegt. Vona bara að þessi rigning fari að hætta hér og sólin fari nú aftur að láta sjá sig svo sumarfríið hjá elskulegri systur minni fari nú ekki alveg í vaskinn... Shocking

Í dag var síðasti skóladagur hjá Eyþóri Atla og Val Snæ í Tilst skóla. Mikið fjör og gaman þar og þeir komu úr skólanum hlaðnir sælgæti eftir að hafa kvatt kennarana, vinina og bekkjarfélagana. Framundan er sex vikna sumarfrí og svo byrja þeir 15. ágúst í Skæring skóla. Þetta er allt svaka spennandi fyrir þá, nýtt hús, nýjir vinir, sumarfrí, fullt af gestum væntanlegir og nýr skóli. Það er mikil tilhlökkun í þeim en stundum er þetta svolítið yfirþyrmandi og spennan aðeins of mikil... Frown Þá verðum við bara að taka þétt utan um þá og reyna að gefa þeim smá öryggi og fá þá til að slaka aðeins á. En við erum öll bara bjartsýn á að eiga skemmtilegt ár framundan með fullt af nýjum ævintýrum Grin

Nýja heimilisfangið okkar er:

Blishønevej 11, Studstrup, 8541 Skødstrup


Flóð

Það rigndi all svakalega hér í gær, var bókstaflega algjört skýfall og allt á floti alls staðar. Þegar ég og Valur Snær komum upp í Norring rétt fyrir fjögur í gær var Elli strandaglópur þar því mótorhjólið hans fékk svo svakalega gusu yfir sig að það bara dó. Hann stökk upp í bílinn hjá mér og við brunuðum í rigningunni til Egå þar sem hann var orðinn of seinn að sækja börnin sín á leikskólann og allt í panik W00t  Þetta hafðist þó að lokum og ég hélt áfram að keyra í rigningunni með ónýtar rúðuþurrkur og sótti Hilmar í vinnuna klukkan fimm. Á leiðinni þangað fékk ég símtal frá Poul og Helle, eigendum strandhússins sem við erum að fara að leigja á laugardaginn... og það lá við að ég fengi vægt taugaáfall Crying  Það var flóð í kjallaranum á strandhúsinu! Helle var móð og másandi í símanum því þau voru á fullu að moka vatninu út. Fyrst brá mér svo því ég hélt að húsið væri stórskemmt og við myndum kannski ekkert fá að leigja það. Svo fattaði ég allt í einu að ÖLL BÚSLÓÐIN OKKAR eins og hún leggur sig... er í kjallaranum í húsinu þeirra Woundering  Við Hilmar brunuðum því eins og brjálaðir bavíanar til Studstrup til að skoða ástandið... og sem betur fer var þetta ekki næstum því eins slæmt og þetta leit út fyrir að vera í upphafi. Hjónin voru þá búin að moka því mesta af vatninu út og húsið var alveg óskemmt. Húsgögnin okkar sluppu líka nánast alveg en það var hellingur af kössum frá okkur þarna á gólfinu og allir neðstu kassarnir voru í blautir í botninn og nokkra sentimetra upp. Við vorum þarna í tvo tíma að taka allt upp úr þeim kössum, þurrka það og setja í nýja kassa. Við vorum ótrúlega heppin að það slapp allt svona vel Joyful

Langir dagar

Úff hvað dagarnir í þessari viku eru eitthvað voðalega langir... Hilmar er að vinna yfirvinnu þessa dagana og vinnur þá frá 6-17 í staðin fyrir 7-15 svo ég keyri hann í vinnuna frá Norring klukkan hálf sex á morgnana. Kem svo til baka og þá byrjar allt morgunstússið með strákana; vekja, klæða, borða, nesta og allt það. Keyri svo guttana og Guðlaugu til Tilst upp úr hálf átta. Mæti svo drullusyfjuð í skólann minn rúmlega átta og hef þá fyrst tíma til að fá mér morgunmat og er þá náttúrulega orðin glorhungruð eftir að hafa verið á fótum í þrjá tíma. Svo myndast ég við að reyna að skrifa þessa blessuðu... (afsakið, skemmtilegu, áhugaverðu, frábæru...) ritgerð mína þar til allt ferlið hefst á nýjan leik seinni partinn við að sækja allt liðið. Svo tekur við allt þetta venjulega amstur eftir það þar til við dettum uppgefin út af rétt fyrir miðnætti.

Í gær var reyndar aðeins öðruvísi dagur... alveg jafn langur samt. Strákarnir fóru að heimsækja nýja skólann sinn í Skæring. Við heimsóttum báða bekkina sem þeir byrja í 15. ágúst. Það var mikil spenna, bæði hjá þeim og hjá öllum nýju bekkjarfélögunum. Þeir voru auðvitað svakalegir töffarar í nýju fötunum sem þeir keyptu sér daginn áður, n.b. báðir í rauðum kvartbuxum með köflóttar "kasket" derhúfur. Þeir slógu svo endanlega í gegn þegar þeir sýndu kennurunum og bekkjarfélögunum break-dans eins og þeim einum er lagið ;)

Eva systir kom svo með Viktor Inga og Daníel Þór til Árósa um sex leytið í gær. Eyþór Atli og Valur Snær voru þá í afmælisveislu í einni keiluhöllinni hér svo gestirnir komu með okkur að sækja þá þangað. Það var mikill fögnuður hjá frændunum fjórum þegar þeir hittust, enda hafa þeir ekki hitt Eyþór Atla í eitt ár og Val Snæ síðan í nóvember. Við fengum okkur svo að borða saman við ánna áður en þau héldu ferðalaginu áfram til Grenå... þar sem ég kom þeim í fóstur hjá Kollu frænku þar til við fáum strandhúsið góða um helgina :)


Nornabrennur

Jæja loksins er að róast aðeins í kringum okkur og kominn tími til að kveikja aftur á tölvunni. Nóg búið að vera að gera síðustu vikuna og ég er eiginlega alveg búin að vera búin á því síðustu daga. Mánudagur, þriðjudagur og miðvikudagur fóru í flutninga, tiltekt og þrif og það var mikill léttir þegar því var lokið og við afhentum lyklana að íbúðinni klukkan þrjú á miðvikudag. Sem betur fer höfðum við þó nóg af hjálpandi höndum og við viljum senda ástarþakkir til Ástu, Ívars, Ella, Brynjars, Sissa, Guðlaugar og þeirra Stavnsvej-inga sem gáfu sér stund í prófatörninni til að lyfta nokkrum kössum :) Þegar flutningnum var lokið var okkur boðið, ásamt Guðlaugu og Sissa, í grillveislu til mjög indælla hjóna sem heita Hrönn og Kiddi og voru að flytja frá Íslandi til Lystrup. Alltaf gaman að kynnast nýju fólki og við áttum mjög skemmtilegt kvöld með þeim þrátt fyrir að allir væru hálf þreyttir og tuskulegir. Síðan þá erum við búin að vera svo heppin að fá að búa upp í Norring hjá Guðlaugu og fjölskyldu. Þar er búið að vera mikið fjör þar sem við erum fjögur fullorðin, fimm börn og einn hundur... samt sem áður allt búið að ganga eins og í sögu og allir fjarskalega sáttir eftir því sem ég best veit. Á laugardagskvöldið var St. Hans Aften hér í Danmörku sem Danir fagna með því að halda grillveislur og brenna nornir á báli. Við grilluðum svaka góðar svínalundir og skelltum okkur svo á nornabrennu upp í Hammel. Brennan þar var nú samt frekar lítil og ofan á henni var lítil norn fljúgandi á kústinum sínum... og hún var svo illa fest að hún hrundi að mestu út úr bálinu og svo kviknaði í hausnum á henni greyinu. Erfið örlög fyrir þessar blessaðar nornir hér... vona bara að þeir uppgötvi ekki að ég sé norn fyrir næstu nornabrennu...

NornabrennaMidsommerfest


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Lífið í Løgten

Höfundur

Eydís Hauksdóttir
Eydís Hauksdóttir
Við hjónin búum ásamt sonum okkar tveim í Danmörku. Við fluttum til Árósa í júlí 2005 í kjölfarið af útskrift minni sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Ég byrjaði svo haustið 2005 í meistarnámi í lögum og viðskiptum Evrópusambandsins sem ég lauk í febrúar 2008. Nú vinn ég hjá indversku vindmyllufyrirtæki sem heitir Suzlon Wind Energy A/S. Hilmar er að vinna hjá frábæru fyrirtæki sem heitir Pressalit Care við að smíða sjúkrarúm og alls kyns rafknúna hluti fyrir fatlaða og einnig fyrir leikskóla. Synir okkar eru Eyþór Atli 11 ára fótboltakappi og Valur Snær 9 ára skáti.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • slum-dog-millionaire
  • slum-dog-millionaire
  • paskaegg
  • tehachapi wind farm
  • subway-eatfresh

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband