Færsluflokkur: Bloggar

Minn tími er haustið

Nú er haustið í fullum skrúða hér í Danmörku og skartar þvílíkri litadýrð. Laufin eru eldrauð, vínrauð, gul og appelsínugul og þau sem ekki hanga enn á trjánum, þekja götur, garða, stræti og torg. Veðrið hefur líka verið milt og gott síðustu daga, sól skín í heiði og hitinn er frá átta til tólf gráður. Ég elska þennan árstíma... enda fædd á honum eins og litlu haustdrengirnir mínir. Hrekkjarvakan og graskerin sem sitja á sólpöllum og við hinar ýmsu útidyrahurðir passa líka vel við alla litadýrðina.

Þegar ég tók strætó í bæinn í gær til að fara í Prismet að læra, fékk ég svona óstjórnlega löngun allt í einu til að fá mér göngutúr í sólinni. Ég fór því úr vagninum við sjúkrahúsið í Århus á Nørrebrogade og fékk mér langan göngutúr þvert yfir gömlu borgina og yfir á Viborgvej þar sem Prismet byggingin er. Ég gekk um gamlar steinlagðar götur sem ég hef aldrei komið í og sá margar fallegar byggingar á leiðinni. Stundum þurfti ég að vaða laufblöðin upp fyrir ökkla því það var svo þykkt lag á gangstéttinni. Þetta var þvílíkt endurnærandi og gott og ég kom því frísk og glöð á leiðarenda með litla pizzu og kók undir hendinni sem ég keypti mér á leiðinni :-)


Haustfríið

Þá er aftur orðið einmannalegt í Stuðstrumpalandi Crying Mamma og pabbi flugu aftur til Íslands í gærkvöldi eftir rólega og góða viku hjá okkur í haustfríinu. Við fórum með þeim á Strikið og í Storcenter Nord, fórum líka að skoða Den Gamle By og mamma fékk líka að skreppa í sitt elskaða Bilka InLove Að öðru leyti var lífinu bara tekið með ró, eldaður góður matur og skroppið í smá göngutúra um Studstrup. Tinni er líka allur að koma til og er alveg orðinn fær um að fara út. Hann hefur samt engan áhuga á því að fara út í dagsbirtu frekar en á Íslandi því hann er svo mikil myrkravera að hann vill bara vera úti á kvöldin og kemur svo mjálmandi á hjónaherbergisgluggann þegar hann vill koma inn.

Óskar og Agnes voru stödd í Silkiborg síðastliðna viku þar sem Agnes var í vinnuferð. Þau komu til Árósa á miðvikudaginn og Óskar varð svo eftir hjá okkur þegar Agnes þurfti að fara til baka seinnipartinn. Hann gisti eina nótt og Hilmar tók sér frí í vinnunni miðvikudag og fimmtudag til að geta leikið aðeins við stóra brósa W00t Þeir skoðuðu aðeins bæjarlífið á miðvikudagskvöldið og skelltu sér í ræktina á fimmtudaginn. Við Hilmar keyrðum Óskar svo til baka til Silkiborgar á fimmtudagskvöldið og fórum út að borða þar með hjónakornunum á Mexíkóskum veitingastað Smile

Það er svo æðislegt að fá fjölskylduna sína og vinina sína hingað út til okkar því það slær aðeins á heimþránna sem dembist af og til yfir okkur Frown Á síðustu fjórum mánuðum erum við Hilmar búin að fá öll systkini okkar í heimsókn, foreldra mína og nokkra trausta og góða vini... og það er bara meiriháttar. Svo ég tali nú ekki um hvað það er notalegt að hafa Tinna Túrbó aftur malandi við hliðina á sér Heart

Í dag er bara búinn að vera algjör letidagur eins og sunnudagar til sælu eiga að vera. Sá eini sem er búinn að gera eitthvað annað en að liggja í leti er hann Valur Snær. Ég fór með hann í reiðtíma í morgun og hann var ekkert smá glaður að fá að fara á bak á íslenskum hesti Grin Það er hestabúgarður hér rétt hjá okkur, á milli Studstrup og Sködstrup, með fullt af íslenskum hestum og hesturinn sem Valur Snær var á heitir Léttir. Danirnir láta hestana heita íslenskum nöfnum en kunna ekki að bera þau fram svo okkur var sagt að hesturinn héti "Letmælk". Hesturinn var rauður og með stærri hestum sem ég hef séð... þ.e. af íslensku kyni... svo þetta var frekar fyndið nafn fyrir hann. Svo fór Valur Snær eftir hádegi með Signe vinkonu sinni og fjölskyldu í sumarhús upp á Mols skaga og var þar fram á kvöld, svo það var nóg að gera hjá honum í dag Smile


Gestir í Stuðstrumpalandi

Jæja, já, kominn tími á smá blogg... Við sem sagt fórum að sjá Jesus Christ Superstar á föstudagskvöldið með vinnunni hans Hilmars og þetta var mjög flott sýning. Svolítið erfitt fyrir okkur Hilmar að skilja alla textana þar sem öll lögin voru sungin á dönsku... en gekk betur með rólegu lögin. Þetta var mikið upplifelsi fyrir strákana og ég var alltaf að hvísla að þeim (eða öskra í eyrun á þeim í hávaðanum) mína takmörkuðu kristinfræði um síðustu daga Jesú Krists og hver væri hvað, þ.e. María Magdalena, Júdas, Pontíus Pílatus o.s.frv. svo þeir næðu nú einhverju af söguþræðinum. Það hafði mikil áhrif á þá að sjá Jesús hýddan með 40 svipuhöggum og krossfestinguna í lokin... og frekar kaldhæðnislegt að þegar Jesús átti að vera dáinn á krossinum, komu allir hinir leikararnir á sviðið og tóku myndir af honum á gsm símana sína... en svoleiðis væri það kannski ef þetta hefði gerst í nútímanum.

Halloween veislan hans Vals Snæs var svo á laugardaginn og það mættu 20 nornir, skrímsli, beinagrindur og draugar. Þetta gekk rosalega vel og það var mikið fjör hjá krökkunum og húsið var skreytt í hólf og gólf með graskerum, leðurblökum, draugum og kóngulóm. Svaka stemning og ég á eftir að setja inn myndir frá því fljótlega :-)

Á laugardagskvöldið fórum við Valur Snær svo til Billund að sækja mömmu, pabba og Tinna. Það var æðislegt að sjá þau eftir að hafa ekki hitt þau í 10 mánuði. Við komum svo heim til Studstrup klukkan hálf ellefu um kvöldið og þar biðu Hilmar og Eyþór Atli eftir okkur með rjúkandi heimalagaðar pizzur, svöngum ferðalöngum til mikillar gleði. Tinni þekkti okkur strax og tók okkur í sátt en gekk um húsið með rassinn niður í gólfi... það er eins og hann kikni í hnjáliðunum þegar hann er óöruggur og geti ekki gengið uppréttur, hann einhvern veginn skríður um með magann á gólfinu greyið. Það lagaðist fljótlega en okkur er samt búið að takast að týna honum tvisvar síðustu tvo daga. Á sunnudaginn hvarf hann í 9 klukkutíma og við héldum að hann hefði sloppið út og kæmi aldrei aftur... en svo fundum við hann að lokum inn í geymslu þar sem hann hafði komið sér í sjálfsheldu bak við fullt af drasli. Á mánudagskvöldið slapp hann svo óvart út og við fórum öll út að leita að honum í myrkrinu og það er sko ekki auðvelt að finna svartan kött í svartamyrkri! Pabbi fann hann svo að lokum seint um kvöldið, okkur öllum til mikillar gleði.

Ég er loksins búin að setja september myndirnar inn á síðuna svo þar má sjá myndir frá Kaupmannahafnarferð okkar Hilmars, matarboðinu sem við héldum fyrir "dönsku fjölskylduna" okkar þegar við áttum brúðkaupsafmæli og myndir af flóðinu á þakinu.

Köttur út í mýri, úti er ævintýri...


Átta ára skáti

Átta ár liðin frá fæðingu litla ofurhugans okkar Halo Vá hvað tíminn flýgur áfram... ég man eftir þessum degi, 11. október árið 1999, eins og hann hafi gerst í gær. En litli guttinn er búinn að afreka margt á þessum átta árum sínum. Byrjaði 6 mánaða í vist hjá hinni þýsku dagmömmu Sonju í Krosshömrum 9a sem við svo seinna keyptum húsið af og Valur Snær kallaði það alltaf Sonjuhús. Var svo á leikskólanum Klettaborg frá tveggja til fimm ára þar sem hann atti kappi við bróður sinn og Daníel Þór frænda sinn alla daga. Varð svo auglýsingastjarna á Íslandi fimm ára gamall þar sem hann lék hinn kjaftfora leikskóladreng í auglýsingum Umferðarstofu. Flúði í kjölfar frægðarinnar til Danmerkur þar sem hann er búinn að fara í þrjá skóla og eignast vini af hinum ýmsu þjóðernum. Orðinn reiprennandi í dönsku og búinn að æfa fimleika, fótbolta og breakdans og er nú orðinn flottur skáti sem er... ávallt viðbúinn Smile

Við vöktum hann klukkan sex í morgun með afmælissöng og litlum pakka sem hann var fjarskalega ánægður með. Hann fær svo fleiri pakka seinni partinn þegar hann kemur heim úr skólanum og þá ætlum við líka að baka köku saman og hann fær svo að velja hvað er í kvöldmat.

Annað kvöld ætlum við að fara í fyrsta skipti í leikhús í Danmörku W00t Hilmar var að vinna tvo miða í vinnunni sinni á Jesus Christ Superstar og við ætlum að kaupa tvo miða fyrir strákana svo við getum farið öll saman að sjá þetta show. Okkur hlakkar rosalega til og strákarnir vita ekkert af þessu ennþá því við ætlum að koma þeim á óvart. Á laugardaginn verður svo Halloween afmælisveisla hér fyrir bekkinn hans Vals Snæs. Hann bauð 23 börnum sem eiga öll að koma í "óhugnarlegum búningum" svo það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því Devil Mamma, pabbi og Tinni koma svo til okkar á laugardagskvöldið svo það er nóg að gerast næstu daga og mikil spenna í gangi Grin


Room with a view

Helgin var bara fín, skelltum okkur með strákana í bíó í Bruuns Gallery á laugardaginn og sáum Disney-myndina "Meet the Robinsons" sem var bara ágætis afþreying en frekar torskilin fyrir strákana þar sem það var verið að flakka fram og til baka í tíma og mjög flókin fjölskyldutengsl í gangi þarna.

Á sunnudaginn vorum við svo í fjóra tíma á fótboltamóti í Hadsten þar sem Eyþór Atli keppti í þrem leikjum. Það gekk mjög vel hjá liðinu hans og það vann tvo leiki af þessum þrem og Eyþór Atli skoraði tvö glæsileg mörk :-) Eftir mótið fengu allir medalíur og Eyþór Atli var að springa úr stolti þar sem þetta er fyrsta medalían sem hann fær fyrir fótbolta... sem er alveg ótrúlegt þar sem hann er búinn að æfa fótbolta í fimm ár. Hann hefur bara alltaf verið að keppa í stökum leikjum út um hvippinn og hvappinn en aldrei á neinum stórum mótum þar sem medalíur eru gefnar. Hann og Valur Snær eiga nú samt báðir silfurmedalíur sem þeir unnu í mars fyrir Breakdans... svo nú eru komnar tvær í safnið hjá Atlanum.

Í dag er ég mætt í Prismet bygginguna þar sem ég er búin að fá úthlutað skrifborði næstu þrjá mánuðina meðan ég klára ritgerðina mína. Prismet byggingin er eftir því sem ég best veit, hæsta byggingin í Árósum og er öll úr gleri. Ég sit núna við skrifborðið mitt sem stendur við glugga upp á 12. hæð og hef útsýni yfir alla Árósa og nágrenni. Ég fékk afnot af bílnum mínum í dag þar sem ég er búin að selflytja allar lögfræðiskruddurnar og möppurnar mínar hingað niður eftir og núna get ég haft öll gögnin mín hér þangað til ég hef lokið ritgerðinni. Það var orðið frekar þreytandi að þvælast niður í skóla með strætó síðustu vikur með níðþunga skólatösku á bakinu... og samt bara með þriðjung af bókunum mínum með í hvert skipti. Hér eftir þarf ég bara að taka tölvuna með mér í strætó og það verður mikill léttir.

Á eftir ætlum við Hilmar að fara í skátabúðina niður í bæ og kaupa afmælisgjöf fyrir litla Valsarann sem verður átta ára á fimmtudaginn. Við erum að spá í að kaupa handa honum skátaskyrtu og skátahníf sem hann er búinn að óska sér í margar vikur. Hann er búinn að fá gefins frá skátafélaginu sínu, sem heitir Delfinerne, skátaklút og derhúfu og einhver merki sem á að sauma í skátaskyrtuna til að sýna hvað hann er búinn að afreka. Svo hann ætti að vera flottur á næsta skátafundi þegar hann verður kominn með júníformið á hreint ;-)


Hláturinn lengir lífið

Enn ein vikan að enda komin og helgarfrí framundan Smile Föstudagskvöld og ég og strákarnir mínir ætlum að eiga kósý kvöld með snakki og kók og horfa á "Vild med dans" í sjónvarpinu sem er uppáhaldsþátturinn okkar. Hilmar er í keilu með vinnufélögunum svo hann missir af öllu fjörinu...

Það hefur nú lítið spennandi gerst síðustu daga, bara þetta venjulega, Hilmar vinnandi frá 7-15 og í ræktinni á kvöldin og strákarnir á fullu í skólanum og öllum sínum tómstundum. Litlu guttarnir mínir hafa verið mjög duglegir að læra heima síðustu vikur og Valur Snær er alveg á mörkunum að verða læs... og hann gerir alveg greinarmun á dönsku og íslensku þegar hann ber fram bókstafina. Ég er rosalega stolt af honum því það er alveg ábyggilega ekkert auðvelt að læra að lesa á tveim tungumálum í einu. En ég er líka fegin að þetta er loksins að koma hjá honum þar sem hann verður nú átta ára gamall í næstu viku.

Ég er búin að þvælast með strætó niður í skólann minn á hverjum degi til að vinna í ritgerðinni minni og var rosalega ánægð með mig í gær þegar ég mætti á fund með leiðbeinandanum mínum og gat sýnt honum 25 fullkláraðar blaðsíður. Þessi elska fletti í gegnum þetta og skoðaði í bak og fyrir, fannst þetta gott sem ég var búin að skrifa... en sá ekki alveg samhengið á milli kaflanna og mælti með ýmsum áherslubreytingum og fundurinn endaði í stuttu máli þannig að ég er nánast aftur á byrjunarpunkti með tvær fullkláraðar blaðsíður Frown Andinn var því heldur langt niðri þegar ég mætti á bókasafnið í morgun og þurfti enn einu sinni að byrja upp á nýtt að lesa og leita að efni.

CatLaughHápunktur vikunnar var á miðvikudaginn þegar við Guðlaug skelltum okkur á hláturnámskeið... ekki til að læra að hlægja því við kunnum það nú alveg nokkuð vel, heldur til að losa um stress. Ógeðslega fyndið að vera á svona námskeiði og gera hláturæfingar. Við sem sagt gengum um gólf og heilsuðum hvert öðru... ekki með orðum heldur hlátri, þóttumst svo vera að tala í síma.... nema töluðum ekki heldur hlógum bara í símann. Svona gerðum við ýmsar æfingar og fyndnast af öllu var í endann þegar við lágum á gólfinu með hausana saman og mynduðum stjörnu og fengum hláturskast. Við Guðlaug hljótum að hafa verið mjög stressaðar því við töpuðum okkur algjörlega þarna á gólfinu og grenjuðum úr hlátri og gátum engan veginn hætt, sama hvað við reyndum. Þetta var bara eins og að verða unglingur aftur og missa sig algjörlega úr hlátri.... sem er ekkert smá gott Grin Við litum því skelfilega út þegar við gengum út úr þessum virðulega Viðskiptaháskóla klukkan sjö um kvöldið, með úfið hár og maskara niður á kinnar... 


Land regndropanna

Það er sko ekki ofsögum sagt að það rigni mikið hér í Danmörku eins og margoft hefur verið talað um. Síðan við fluttum í strandhúsið góða þann 1. júlí er búið að slá hvert rigningarmetið á fætur öðru hér í Árósum og nágrenni. Síðastliðna helgi stytti ekki upp í þrjá sólarhringa og rigningin buldi með svo miklum krafti á þakinu hjá okkur að við gátum varla sofið á nóttunni. Ég hrökk margsinnis upp við lætin og hélt stundum í svefnrofunum að ég væri stödd í tjaldi í Þórsmörk í grenjandi rigningu Woundering 

Á sunnudagsmorguninn gægðumst við svo upp á þak þar sem það var farið að dropa úr loftinu á hinum ýmsu stöðum í húsinu. Okkur dauðbrá þegar við sáum ástandið þar því að þakið á húsinu er flatt og ca. 10 cm hár kantur upp allan hringinn.... og þar var sem sagt þessi fína sundlaug sem þakti allt þakið! Strákunum var því skellt í pollagalla og stígvél og fleygt upp á þak... þeim til mikillar gleði... W00t ...og við Hilmar tróðum okkur í einhver allt of lítil stígvél (ég fór í stígvél af Val Snæ sem eru fjórum númerum of lítil og Hilmar fór í stígvél sem hann fann í kjallaranum og voru þrem númerum of lítil) og svo var vaðið um þakið þar sem vatnið náði vel upp fyrir ökkla á okkur. Við vorum vopnuð skóflum, gluggasköfum og kústum og svo var hafist handa við að skófla og skvetta vatninu yfir þakbrúnina. Þetta var þvílíkt púl og tók langan tíma og við vorum gjörsamlega búin á því þegar það mesta var búið og við gátum klifrað niður með rauðar og kramdar tær Crying

Þegar við komum niður og fórum að skoða ástandið í kringum húsið, sáum við að mest af vatninu hafði runnið niður á lægsta punktinn við húsið.... það er í portið fyrir utan gestaherbergið. Við þurftum því að hlaupa þangað með allar fötur og tunnur sem við gátum fundið og bera vatnið upp úr portinu (sem er niðurgrafið við kjallarahæðina) og hella úr þeim út í skóg. Ég hljóp svo inn í húsið til að sækja fleiri fötur og sá þá að það var búið að flæða vatn inn og yfir allt gólfið á gestaherberginu og ganginum þar fyrir utan! Svo þá var hvert einasta handklæði í húsinu tekið fram og notað til að þurrka gólfið inni og þar sem Hilmar var að nota allar föturnar okkar fyrir utan húsið varð ég að nota salatskálar og kökuföt til að vinda handklæðin í inni. Þvílíkt ástand... en þetta hafðist að lokum og ekkert skemmdist sem betur fer.... nema kannski bökin á okkur Shocking 

Þegar þessi hasar var búinn komum við okkur bara í burtu og fórum í afmælisveislu til Brynju og Ella þar sem sæta litla María átti þriggja ára afmæli. Þar gátum við slakað á og borðað á okkur gat, enda glorhungruð eftir öll lætin. Þegar við komum aftur heim seinnipartinn, beið okkar tonn af handklæðaþvotti og skúringum... svo það var dauðþreytt fjölskylda sem sofnaði snemma á sunnudagskvöldið Sleeping 


Eyþór Atli í Lejerskole

Nú sit ég á kaffistofunni í VM dans og blogga á meðan strákarnir æfa breakdans á fullu hjá Emil Castro, sem er svaka svalur kennari. Eyþór Atli er búinn að vera frá mánudegi fram á miðvikudag í Lejerskole með bekknum sínum á Norður-Jótlandi og var svaka glaður með ferðina þegar ég sótti hann á brautarstöðina í hádeginu í dag. Það munaði nú ekki miklu að hann missti af ferðinni þegar mamma hans fór með honum í strætó niður á brautarstöð klukkan sjö á mánudagsmorguninn. Mamma hans er nefnilega alltaf á síðustu stundu eins og sumir vita og þolir þar að auki alls ekki strætisvagna. Við vorum náttúrulega of sein af stað út úr húsinu og misstum þar af leiðandi af strætisvagninum sem við ætluðum að taka og vorum næstum því búin að missa af þeim næsta líka. Við hlupum því eins og brjálæðingar út á stoppistöð sem er í töluverðri fjarlægð frá húsinu, bæði með skólatöskur á bakinu, veski á handleggnum, ferðatösku í eftirdragi og með risastóran Bart Simpson í fanginu. Komum móð og másandi inn í strætó og svo var fjárans vagninn bara að dóla sér í meira en klukkutíma niður í bæ. Við komum því á brautarstöðina í þann mund sem lestin var að fara af stað, hlupum niður rúllustigann og eftir endilöngum brautarpallinum og ég næstum því fleygði Eyþóri Atla og farangrinum hans inn um hurðina á lestinni... um leið og hún lokaðist og lestin rauk af stað.... og ég rétt náði að vinka bless áður en hún hvarf. En þrátt fyrir þetta ævintýri gekk ferðin rosalega vel og mér skilst að aðalfjörið hjá strákunum hafi verið að pína sig til að vaka fram yfir miðnætti og læðast svo fram og vekja stelpurnar... algjörar gelgjur.

Annars er lítið af nýjum fréttum, ég er bara enn skrifandi á skólabókasafninu alla daga, meira að segja á sunnudaginn líka! Tók mér þó pásu á laugardaginn og við fjölskyldan skruppum í verslunarferð til Randers til að kaupa eitt og annað sem strákunum vantaði og við keyptum meira að segja fimm jólagjafir í leiðinni.... það eru nú bara 89 dagar til jóla ;-)


Ritgerðarsmíð

law-bookSkrifi, skrifi, skrif.... er það eina sem kemst að hjá mér þessa dagana Woundering Er búin að vera á skólabókasafninu að vinna í ritgerðinni minni alla vikuna og er farin að dreyma um lög og reglugerðir á nóttunni. En þetta er bara gaman þegar maður er loksins komin í lærdómsgírinn og farin að sjá að þetta tekur mögulega enda einn góðan veðurdag. Ég sé mig í hillingum vera með lotningu að afhenta leiðbeinandanum mínum ritgerðina, innbundna og glæsilega... úff, hvað það verður góð tilfinning Smile Er meira að segja búin að panta pössun fyrir strákana hjá Guðlaugu og segja Hilmari að ég ÆTLI að fara flott út að borða með honum þegar þessi snilldardagur rennur upp. Var svo að velta fyrir mér hvaða tegund af freyðivíni ég ætti að kaupa til að skála við vinkonur mínar eftir vörnina Sideways .... það er nú allt í lagi að missa sig aðeins í dagdraumunum, ekki satt?

Svo erum við öll að springa úr ánægju yfir því að mamma og pabbi ætla að koma til okkar í haustfríinu, 13. til 20. október. Það var tilboð hjá Iceland Express í gær sem ég náði að grípa fyrir þau W00t Doldið fyndið þegar ég fékk bókunarstaðfestinguna á skjáinn, þá stóð: Haukur Aðalsteinsson (maður) og Esther Guðmarsdóttir (dýr í búri). Ástæðan fyrir þessu er sjálfsagt að Tinni Túrbó, kisulingurinn okkar ætlar að koma með þeim.... samt svolítið fyndið að sjá þetta skrifað svona Joyful


Matarboð og arabískur markaður

Matarboðið á laugardagskvöldið tókst svona líka rosalega vel, parmesan kjúklingurinn var fínn og gestirnir frábærir svo þetta hefði nú ekki getað verið mikið betra Happy Oil_VinegarVið fengum meira að segja fallegar gjafir frá öllum saman, Guðlaug og Sissi komu með rauðvín og eftirrétt, þvílíkt góðar súkkulaði-ísstertur og rjóma og Brynja og Elli komu með rósir og gyllta borðflaggstöng með danska fánanum svo núna getum við flaggað í bak og fyrir, tíhíhí. Ásta og Ívar komu með þvílíkt fallegar rósir og jómfrúarólífuolíu og parmesankryddblöndu frá búðinni "Oil & Vinegar" sem er í Bruuns Gallery. Við prófuðum þetta með matnum í gær og þetta er algjör snilld! Við hrærðum smá af parmesankryddblöndunni saman við soðið vatn og settum svo ólífuolíuna útí og þá var þetta orðið að grænu mauki sem við settum ofan á snittubrauðið sem við höfðum með pastanu í gær.... og o.m.g. hvað þetta var truflað gott, það var bara eins og við værum komin til Ítalíu Smile

Um hádegi í gær fórum við í bíltúr í gömlu götuna okkar í Tilst, skrítið að koma þangað aftur og hitta nokkra af gömlu grönnunum. Strákarnir voru í skýjunum yfir þessari heimsókn og Valur Snær varð eftir hjá Mána Frey vini sínum og Eyþór Atli varð eftir hjá Hauki Smára. Við hjónin fórum því barnlaus í burtu úr þessari heimsókn og ákváðum að kíkja í Bazar Vest sem við höfum svo lengi ætlað að skoða. Þetta er arabískur markaður sem minnti mig svolítið á Kolaportið... nema það voru bara arabar með arabískar vörur þarna. Okkur leið eins og við værum stödd einhvers staðar allt annars staðar í heiminum en í Danmörku, allt önnur stemning, skrítnar vörur og margt sem við höfðum aldrei séð, öðruvísi fólk og meira að segja öðruvísi lykt. ÁvextirEn þarna var risastór ávaxta- og grænmetismarkaður sem var mjög girnilegur og okkur skilst að maður fái hvergi ferskari slíkar vörur en einmitt þarna. Það stóð á hverri einustu vöru hvaðan hún kemur og við misstum okkur aðeins í að versla þarna mangó, eggaldin, sætar kartöflur, paprikur og eitthvað fleira girnilegt. Þarna voru líka fullt af arabískum veitingastöðum svo kryddlyktin angaði þarna um allt og heilir lambaskrokkar héngu þarna á krókum hjá slátrurunum. Þetta var því mjög spes upplifelsi að koma þangað og við mælum með að fólk prófi þetta Ninja


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Lífið í Løgten

Höfundur

Eydís Hauksdóttir
Eydís Hauksdóttir
Við hjónin búum ásamt sonum okkar tveim í Danmörku. Við fluttum til Árósa í júlí 2005 í kjölfarið af útskrift minni sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Ég byrjaði svo haustið 2005 í meistarnámi í lögum og viðskiptum Evrópusambandsins sem ég lauk í febrúar 2008. Nú vinn ég hjá indversku vindmyllufyrirtæki sem heitir Suzlon Wind Energy A/S. Hilmar er að vinna hjá frábæru fyrirtæki sem heitir Pressalit Care við að smíða sjúkrarúm og alls kyns rafknúna hluti fyrir fatlaða og einnig fyrir leikskóla. Synir okkar eru Eyþór Atli 11 ára fótboltakappi og Valur Snær 9 ára skáti.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • slum-dog-millionaire
  • slum-dog-millionaire
  • paskaegg
  • tehachapi wind farm
  • subway-eatfresh

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband