Færsluflokkur: Bloggar
10.12.2007 | 11:58
Skriftirnar endalausu
Það var fullt að gera hjá mér alla síðustu viku í ritgerðarvinnu og ég pressaði mig þvílíkt við að skrifa langt fram á kvöld og nætur alla vikuna. Það er svo ótrúlegt hvað þetta tekur langan tíma og hvað það er alltaf mikil vinna eftir þó ég haldi alltaf að ég sé alveg að verða búin! En ég náði loksins fyrsta markmiði mínu klukkan fimm á föstudaginn... því þá sendi ég fyrstu fjóra hlutana af fimm í yfirlestur til tveggja vinkvenna minna. Þær eru norskar og voru báðar með mér í þessu ESB námi. Ég sendi því eitt eintak til Kjerstin í Haugasundi í Noregi og hitt fór til Grænlands þar sem Cecilie er að vinna núna.
Ég fór því í helgarfrí með góðri samvisku og átti frábæra jólahelgi með litlu fjölskyldunni minni. Við eyddum öllum laugardeginum í smákökubakstur og bökuðum súkkulaðibitakökur, kókóstoppa, spesíur og sörur! Þetta tókst allt rosalega vel en ég er hrædd um að ég þurfi að setja hengilás á boxið með sörunum svo Hilmar klári þær ekki áður en gestirnir koma. Við fáum nefnilega frábæra gesti um jólin og okkur hlakkar mikið til þess. Mamma og pabbi koma þann 22. desember og Eva systir kemur með strákana sína á Þorláksmessukvöld. Það verður því líf og fjör í strandhúsinu yfir hátíðarnar og örugglega mikið spilað og borðaður góður matur :-)
Á sunnudaginn skruppum við í smá kaffi til Brynju og Ella í Egå og auðvitað var Elli búinn að baka þessa fínu súkkulaðiköku og danskar eplaskífur með sultu og rjóma... ummm, ekkert smá gott. Við kíktum á sófasettið okkar í leiðinni sem er búið að vera í geymslu í bílskúrnum þeirra í hálft ár... og er byrjað að mygla í rakanum þar. Það gengur því miður ekkert að selja það þó það sé auglýst til sölu á þrem stöðum á netinu. Erum að spá í að fara með það í Shoppit og prófa að selja það þar... eini gallinn er að þeir taka 40% í sölulaun af því.
Núna er síðasta ritgerðarvikan mín að hefjast. Markmið vikunnar er að klára fimmta og síðasta hlutann sem eru lokaorðin og fara yfir athugasemdirnar frá yfirlesurunum mínum góðu og gera viðeigandi breytingar. Ég vonast svo til að geta sett meistarastykkið í prentun og innbindingu fyrir næstu helgi. Ég býst við að leiðbeinandinn minn láti mig verja hana í janúar og þá ætti þessu að vera endanlega lokið. Ég get ekki beðið eftir að koma þessu frá mér og er búin að sverja þess eið að ég ætla aldrei framar að læra nokkurn skapaðan hlut... það sem eftir er ævinnar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.11.2007 | 09:29
Jólasveinninn kemur í kvöld
Mikið er ég nú heppin að eiga svona frábærar vinkonur sem hafa svona mikla trú á mér Ástarþakkir fyrir allar hvatningarkveðjurnar sem ég fékk í síðasta bloggi, I love you girls.... Ég fór sem sagt í þetta atvinnuviðtal en svo var þetta nú ekkert tengt einhverri ákveðinni vinnu. Þetta var bara viðtal við tengiliðinn minn hjá þessari ráðningastofu svo hann fengi meiri upplýsingar um mig... svo skrifaði ég undir samning og tók stafsetningarpróf. Þetta gekk allt saman mjög vel og ég var bara nokkuð góð með mig þegar ég gekk út einum og hálfum tíma seinna. Svo á ég bara að fylgjast með atvinnuauglýsingunum á vefnum hjá þessari stofu og senda tengiliðnum mínum tölvupóst ef ég sé eitthvað áhugavert. Ég er búin að senda honum tvo pósta síðan og er aðeins bjartsýnni á að ég fari nú að fá einhverja vinnu hér. Það er bara ekkert grín að leita sér að vinnu í útlöndum, því miður. Ég er nú reyndar líka búin að senda tvær umsóknir til EFTA í Brussel og örfáar til Íslands líka, svona smá tilbreyting frá því að gera danskar umsóknir.
Valur Snær er búinn að vera að læra um Maya indjánana í Guatemala alla vikuna, svaka spennandi verkefni. Hann er búinn að elda mat frá Guatemala... sem hann sagði að líktist tröllahorinu sem ég kaupi stundum... grunar að hann sé að meina Guacamole. Þau eru búin að horfa á stuttmynd um indjánafjölskyldu, föndra landslagið á svæðinu, teikna fána og búa til "Bekymringsdukke" sem myndi sennilega útleggjast sem "áhyggjudúkka" á íslensku. Þetta eru svona pínulitlar indjánadúkkur sem á að setja undir koddann sinn ásamt bréfi sem maður skrifar áhyggjur sínar í. Hann var svo góður að lána mér dúkkuna sína undir koddann minn, kvöldið fyrir atvinnuviðtalið... og ég er ekki frá því að þetta hafi hjálpað Mæli með svona þemaviku í íslenska skóla.
Í kvöld kemur jólasveinninn frá Grænlandi og kveikir jólaljósin á Strikinu og allar búðir verða opnar til miðnættis. Við erum því að spá í að skella okkur í bæinn og kaupa smá jólagjafir og afmælisgjöf fyrir Sindra sæta sem heldur afmælisveislu á sunnudaginn. Það verður æðislegt að hitta dönsku fjölskylduna okkar. Það er búið að vera svo mikið að gera síðustu vikur hjá öllum í skólanum að maður er komin með fráhvarfseinkenni af að hitta fólk.
Ritgerðin gengur líka ágætlega þó mér sé ekki alveg að takast að skila henni fyrir mánaðarmót eins og ég ætlaði mér... tafðist aðeins við þessi atvinnumál svo það eru enn eftir nokkrir dagar af ritgerðarvinnu. Í dag ætla ég að reyna að skrifa eins mikið og ég mögulega get... sem er samt svolítið erfitt því ég er að drepast í öxlinni Ég hélt nefnilega á Tinna í gær þegar hann sá hund... og fékk þennan líka rokna löðrung á kjálkann frá honum... með allar neglur úti. Þetta voru ekki stór klór en tvær neglur fóru á kaf inn í húðina á mér og það blæddi töluvert úr þessu. Ég þurfti því að fara á læknavaktina í gærkvöldi og fá stífkrampasprautu í öxlina og vaknaði svo í morgun með öxlina tvöfalda og helauma.... skemmtilegt!
Bloggar | Breytt 1.12.2007 kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.11.2007 | 16:45
Jólaskapið mætt á staðinn
Innan við mánuður til jóla og allir bara að komast í þetta fína jólaskap hér á bæ. Jólaauglýsingarnar dynja á okkur úr sjónvarpinu, útvarpinu og blöðunum og ruslpósturinn streymir sem aldrei fyrr. Hilmar er náttúrulega algjört jólabarn, enda fæddur 20. desember, og hann skapaði voða notalegt andrúmsloft í húsinu í dag á meðan ég og strákarnir sátum og lærðum við eldhúsborðið. Hann kveikti á kertum út um allt, spilaði íslensk jólalög og bakaði súkkulaðibitakökur svo bökunarlyktin angaði um allt hús :-)
Helgin er búin að vera mjög skemmtileg og kósý. Ég og strákarnir fórum á Strikið á föstudaginn, ég byrjaði á því að fara í klippingu og svo fóru strákarnir á verslunarflipp. Þeir fengu dálítið af peningum í afmælisgjafir og voru því orðnir spenntir að fara í bæinn til að eyða honum. Þetta var rosa gaman og þeim finnst greinilega miklu skemmtilegra að fara í búðir þegar þeir eiga sjálfir peninga og ég get ekkert skipt mér af því hvað þeir eru að kaupa ;-) Þeir keyptu sér DVD myndir, Playstation leiki, arabaklúta og fullt af fötum. Þetta var allt rosa flott og ég var bara mjög ánægð með það sem þeir völdu. Ég fékk líka fína útrás í einu af því skemmtilegasta sem ég geri...sem er að fara á búðarráp... og þurfa samt ekki að eyða krónu af mínum eigin peningum. Svo var bara komið við á Makka Dóna á leiðinni heim og haft það kósý það sem eftir var kvölds. Á meðan var Hilmar á jólahlaðborði með vinnunni þar sem var farið í alls kyns spil og leiki, pakkarugl og sungið í karókí svo hann átti líka skemmtilegt föstudagskvöld :-) Á laugardaginn fórum við svo með strákana í bíó og sáum danska jólamynd sem heitir "Karlas Kabale". Danir eru algjörir snillingar í kvikmyndagerð og við höfum mjög gaman að því að sjá danskar myndir í bíó... og svo kemst maður alltaf í svo mikið jólaskap þegar maður sér svona jólalegar jólamyndir :-)
Framundan er ný vinnu-, skóla- og lærdómsvika hjá fjölskyldunni og aðalfréttin er að ég er að fara í atvinnuviðtal á miðvikudaginn, jibbíjæjei! Ég er að fara í viðtal hjá ráðningarstofu sem hafði samband við mig og er hugsanlega með eitthvað starf fyrir mig... sem ég veit ekkert nánar um. Ég er því bæði spennt og kvíðin og ætla að nota þriðjudaginn í að undirbúa mig andlega... horfa á Secret, æfa mig í að svara algengum spurningum í atvinnuviðtölum og fara á lögreglustöðina að sækja sakavottorðið mitt. Ráðningastofan vill að ég komi með sakavottorð og nafn og símanúmer hjá einum meðmælanda með mér í viðtalið. Ég hringdi því í Árna Z., forstjórann hjá Miðlun og mér til léttis er hann meira en tilbúinn til að gefa mér góð meðmæli þegar þeir hringja í hann :-) Svo nú er bara að krossa fingur og vona það besta á miðvikudaginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.11.2007 | 15:48
Fjör í festinu
Vá hvað tíminn flýgur áfram, liðin yfir vika frá síðasta bloggi, kominn 18. nóvember og bara 36 dagar til jóla, fjúff... Síðastliðin vika hefur verið helguð ritgerðarskrifum og atvinnuumsóknum og það stefnir bara allt í rétta átt í þeim efnum. Það bætast við síður í meistarastykkið með hverjum deginum sem líður og styttist því óðfluga í að ég verði meistari í kynferðislegri áreitni Það er sem sagt aðal inntak ritgerðarinnar minnar...tíhíhí.
Ég er búin að sækja um hátt í 40 atvinnur og búin að fá einhvern helling af synjunum... en ég held að það sé nú alveg að fara að koma að já-inu núna. Ég hef allavegana haft góða tilfinningu fyrir því um helgina og er búin að vera að undirbúa mig fyrir komandi viðtöl. Það eru ýmis teikn á lofti sem segja mér að það séu stórvægilegar breytingar framundan á næstu vikum
Það var þvílíkt fjör á föstudagskvöldið. Valur Snær fór á grímuball í skólanum sínum og sló í gegn sem "maðurinn með ljáinn" og á meðan hélt Eyþór Atli upp á "þrítugsafmælið" sitt með tveim bekkjarfélögum sínum. Við Hilmar vorum að undirbúa og stússast í veislunni í fimm tíma og þetta tókst svakalega vel. Það voru 28 börn í partýinu og brjáluð læti og gelgjustælarnir alveg að drepa þau... okkur er bara farið að kvíða fyrir unglingsárunum fyrst þau haga sér svona 10 ára gömul! Allir fengu fordrykk í kampavínsglösum með sykurrönd á brúninni og svo var þvílíkt flott hlaðborð með alls konar mat. Þegar krakkarnir voru búnir að borða fóru þau inn í diskósalinn að dansa. Þar var búið að klæða alla veggi með svörtum plastpokum og efni og svo voru diskóljós og diskókúlur hangandi í loftinu. Tónlistin stillt á hæsta og svo var dansað, breikað, farið í limbó og hamast eins og ég veit ekki hvað! Þegar sumir urðu þreyttir á dansinum var farið inn í "hygge" herbergið og fengið sér poppkorn og safa. Þegar við komum heim um tíuleytið var strákunum skellt beint í rúmið og við Hilmar hentum okkur í sinn hvorn sófann til að horfa á bíómynd. Við vorum bæði steinsofnuð 10 mínútum seinna... gjörsamlega búin á því
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.11.2007 | 17:55
Vetur konungur nálgast
Brrrr, það er svooooo kalt úti núna, ískalt og nístir inn að beini Það er kominn vetur í Danmörku. Og þá er ekkert annað að gera en að taka því bara, kveikja upp í kamínunni og arninum og klæða sig í ullarpeysu og lopasokka. Ég ákvað í vikunni að ég nenni ekki að þvælast niður í bæ á hverjum degi í strætó í þessum kulda og flutti því allt skóladótið mitt heim aftur. Ég er búin að hertaka skrifborðið hans Eyþórs Atla og dreifa úr mér þar með allar skólabækurnar, pappírana, möppurnar og tölvuna mína. Þetta er líka heilmikill tímasparnaður hjá mér þar sem ég er einn og hálfan tíma í tveim strætisvögnum á leiðinni í bæinn og annað eins til baka seinnipartinn. Svo fæ ég líka alltaf svo mikinn hausverk í strætó að ég er oftast alveg ónýt þegar ég kemst á leiðarenda og ekki í góðu formi til að hefja skriftir
Núna hef ég það bara kósý heima, helli mér upp á fulla kaffikönnu sem ég hef hjá mér á skrifborðinu og það heldur mér gangandi allan daginn. Svo er ég búin að stilla gemmsann minn þannig að hann pípi á tveggja tíma fresti og segi mér ýmist að ég eigi að fara að læra eða að ég eigi að fara í pásu
Annars erum við bara búin að hafa það fínt og það er búið að vera nóg að gera hjá strákunum í dag. Eyþór Atli fór á fótboltamót í morgun og skoraði sex mörk í fjórum leikjum... mont, mont Lét þetta svo ekki nægja og mætti á fótboltaæfingu klukkan tvö og svo kom Nikolaj vinur hans með honum heim og ætlar að gista hjá okkur í nótt. May, bekkjarsystir Vals Snæs hringdi í hann í morgun og bauð honum að vera heima hjá sér í allan dag... og hálftíma seinna hringdi önnur bekkjarsystir hans og bauð honum líka í heimsókn... sem verður að bíða betri tíma þar sem hann getur víst ekki klónað sig... ennþá. Það tekur á að vera svona vinsæll
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.11.2007 | 11:25
10 ára fótboltastrákur
Þá er fyrsti áratugurinn í höfn hjá honum Eyþóri Atla okkar Hann vaknaði sæll og glaður með að þessi langþráði dagur væri loksins runninn upp sem hann er búinn að vera að telja dagana að í margar vikur. Við sungum að sjálfsögðu afmælissönginn upp í rúmi og svo opnaði hann einn pakka áður en hann fór í skólann. Hann er reyndar búinn að vera að opna afmælispakka í nokkrar vikur núna sem hafa bæði borist frá Íslandi og einnig frá nokkrum vinum hér í Danaveldi. Það er þó búið að takast að halda nokkrum pökkum til hliðar svo hann fær heila fimm pakka í dag
Hann var voða spenntur að mæta í skólann og fór í fínum fötum því það er nú alltaf svo gaman þennan eina dag á ári að vera miðpunktur dagsins. Hann hringdi nú samt í mig klukkan rúmlega ellefu til að spyrja hvort hann mætti ekki bara drífa sig heim... hann getur ekki beðið eftir að opna restina af pökkunum... tíhíhí. En kennarinn reif símann af honum og slökkti á honum áður en ég náði einu sinni að svara... svo hann verður að halda út aðeins lengur litla skinnið
Föstudagskvöldið 16. nóvember ætlar Eyþór Atli að halda bekkjarpartý ásamt tveim bekkjarfélögum sínum sem verða líka 10 ára í þessum mánuði og voru send boðskort á allan bekkinn þar sem boðið var í 3x10 = þrítugsafmælisveislu. Við Hilmar funduðum í gær með mæðrum hinna tveggja drengjanna til að plana veisluhöldin sem verða haldin í skátaheimilinu í Skæring. Þær voru alveg að tapa sér úr spenningi yfir þessu og það á að vera diskótek í einu herberginu, kósý stemning í öðru herbergi og matarhlaðborð í því þriðja. Og þar sem þetta á að vera "þrítugsafmæli" verður meira að segja fordrykkur í formi óáfengs kampavíns og svo verða kjötbollur, pizzur, kartöflusalat og ég veit ekki hvað og hvað á hlaðborðinu. Poppkorn og snakk í eftirrétt og þær ætla líka að kaupa 3 lítra af hvítvíni og 3 lítra af rauðvíni fyrir foreldrana svo þeir geti fengið sér drykk þegar þeir koma að sækja börnin um níuleytið.... svona eru nú Danir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.11.2007 | 10:27
Í fréttum er þetta helst...
Það er svo sem ekkert sérstakt í fréttum hjá okkur í dag. Nema kannski að helgin var notaleg að vanda... Hilmar spilaði póker með vinunum á föstudagskvöldið og kom heim með aðeins meira í veskinu en hann fór út með. Ég og litlu strumparnir mínir horfðum á meðan á Vild með dans eins og vanalega og horfðum svo á bíómynd á eftir. Þetta var einhver lögfræðimynd með Chris O'Donnell og Gene Hackman þar sem sá gamli var á dauðadeildinni í fangelsi og endaði í gasklefanum. Þetta vakti upp miklar spurningar og vangaveltur hjá strákunum sem höfðu aldrei áður vitað að það væri til dauðarefsing eða félög eins og Ku Klux Klan (sem Gene Hackman var meðlimur í). Það er skrítið þegar börnin manns vaxa og þroskast og átta sig smátt og smátt á því hvað það er til grimmur heimur þarna úti, sem þau vita sem betur fer ekki mikið um. Ég mátti hafa mig alla við að svara spurningaflóðinu frá þeim eftir bestu getu og útskýra þetta allt saman á sem einfaldastan hátt. Á eftir sátu þeir með tárin í augunum og fannst Bandaríkjamenn einstaklega vondir menn að geta dæmt fanga til dauða. Ég tek fram að þessi mynd var ekki bönnuð börnum og engin ljót atriði eða blóð í henni... en hún snerti strákana ótrúlega mikið og þeir verða sennilega andstæðingar dauðarefsinga það sem eftir er ævinnar.
Á sunnudaginn fengum við megnið af dönsku fjölskyldunni okkar í heimsókn og vorum með kaffi og kökur á boðstólnum. Það er alltaf svo gaman og gott að eiga svona stundir með vinum sínum og spjalla um alla heima og geima. Við erum nú að vonast til að við fáum bráðum smá hluta af alvöru fjölskyldunni okkar hingað út til okkar. Mamma og pabbi voru nefnilega að selja húsið sitt í Krosshömrunum sem er búið að vera langt og taugatrekkjandi ferli og við erum að reyna að sannfæra þau um að setja bara búslóðina í geymslu til að byrja með og koma í afslöppun til Danmerkur í nokkra mánuði. Þau hefðu nú bara gott af því... finnst okkur allavegana ;-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.11.2007 | 19:11
Móðurmerki og afmælispakkar
Það er bara alveg að koma helgi aftur, djísús kræst hvað tíminn líður hratt. Vikan er bara búin að fara í eintómt rugl því ég er búin að vera lasin síðan á þriðjudag, full af kvefi og hausverk og var með smá hita þriðjudag og miðvikudag En ég mátti ekkert vera að þessu hangsi lengur svo ég reif mig bara upp úr rúminu eftir hádegi í dag, dreif mig í sturtu, klæddi mig og snyrti mig aðeins til og vollaaaa... alveg eins og nýsleginn túskildingur Náði svo í strákana í skólann og við Eyþór Atli skruppum að hitta heimilislækninn okkar.
Ég var að láta kíkja á þessa fínu fæðingarbletti mína sem pabbi minn var svo góður að erfa mig að og hann var svo örlátur að hann gaf mér a.m.k. 3000 stykki. Fæðingarblettir eru reyndar kallaðir "modermærke" hér í Danaveldi svo þeir vilja nú ekkert tengja þá við feður hér.... Læknirinn ætlar að senda mig til húðlæknis í nánari skoðun og hún sagði að það væri komin ný tækni við að rannsaka fæðingarbletti hér. Það er einhvers konar lampi sem lýsir á hvern blett og þá sést með ljósinu hvort það eru frumubreytingar í blettinum. Mér líst miklu betur á það heldur en á þennan hringhníf sem var notaður á mig á Íslandi til að ná blettunum upp með rótum... sem er frekar sárt og þurfa svo að bíða í marga daga eftir niðurstöðunum úr ræktuninni
Ég verð nú að segja frá því að þó ég hafi ekki átt merkilegt afmæli á mánudaginn að þá fékk ég nú fjóra afmælispakka sem ég er svo rosalega ánægð með... og meira að segja þrjá frá Íslandi Hilmar og strákarnir gáfu mér geggjað flotta svarta leðurtösku... Hilmar var orðinn eitthvað þreyttur á fjólubláu töskunni minni sem ég er alltaf með og bið hann reglulega að halda á fyrir mig svo allir geti kallað hann Tinky Winky...hehe Eva systir gaf mér rosalega fallega vínrauða blúnduskyrtu svo ég geti verið fín þegar ég mæti í atvinnuviðtölin sem fara vonandi að streyma inn... hún ætlar sko ekki að þurfa að skammast sín fyrir unglinginn litlu systur sína Og elskulegu vinkonurnar mínar Linda og Anna Kristín sendu mér svo æðislegar gjafir.... þær þekkja mig greinilega vel því þær hefðu ekki getað hitt betur í mark. Linda gaf mér bók sem heitir "Látum steinana tala" sem er handbók um steina og kristalla og ég er búin að liggja yfir henni því ég er að safna orkusteinum úr uppáhaldsbúðinni minni í Latínuhverfinu sem heitir Ametyst. Anna Kristín gaf mér bláa gelgrímu sem á að kæla eða hita og setja svo á sig og þá læknast hausverkur og mígreni.... og gríman hefur sko komið að góðum notum í veikindum síðustu daga þar sem ég hef verið með svo mikinn hausverk. Sonum mínum fannst ég frekar skrítin þegar ég lá í stofusófanum í gær með þessa bláu grímu í kringum augun með fljólubláan orkustein á enninu... sem ég las í bókinni minni að lagaði hausverk Svo fékk ég líka það sem ég var búin að óska mér frá Önnu Kristínu minni, geggjaða ljósmynd sem hún tók í ljósmyndanáminu sínu, innrammaða og flotta og hún á pottþétt eftir að verða mikils virði þegar hún er orðinn frægur og flottur ljósmyndari
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.10.2007 | 08:16
Afmælisstelpa
Jæja þá er 29. október runninn upp og árin orðin 34. Mér finnst þetta bara fínn aldur og árið framundan leggst vel í mig. Þetta er árið sem ég mun ljúka námsferlinum mínum og hefja starfsferilinn minn sem viðskiptafræðingur með mastersgráðu og það verður ekkert smá spennandi að sjá hvar ég enda eiginlega eftir allt þetta nám.... Spákonurnar tvær sem ég spjallaði við í vor sögðu báðar að ég ætti eftir að fá svakalega spennandi vinnu á haustmánuðum þar sem ég yrði mikið á ferðinni og að þetta starf ætti alveg einstaklega vel við mig. Þær sögðu líka að ég myndi þurfa að velja á milli tveggja atvinnutilboða. Ég fæ alveg fiðring í magann af tilhlökkun við að hefja þetta ævintýri.... jíbbíjæjei.
Ég er nú búin að sækja um 24 störf síðustu tvo mánuði og er nú þegar búin að fá 11 synjanir.... sem er bara frábært því þá styttist óðfluga í jáið.... ekki satt? Það þýðir ekkert að láta þessar synjanir trufla sig, maður verður bara halda áfram og áfram þar til einhver gefur manni tækifæri.
Það var voða notalegt að vakna í morgun við knús og kossa frá öllum strákunum mínum... meira að segja Tinni kom líka upp í rúm að knúsast :-) Eftir morgunmat arkaði ég með litlu drengjunum mínum út á stoppistöð þar sem við vippuðum okkur upp í vagn númer 56. Valur Snær sat hjá mömmu sinni meðan Eyþór Atli settist náttúrulega í hinn endann á vagninum og þóttist ekkert þekkja okkur.... same old, same old. Þeir fóru svo út við skólann sinn og ég hélt áfram niður í bæ þar sem Guðlaug mín sótti mig og kom með mér í Prismet þar sem við ætlum að eyða deginum í lærdóm.... hvað annað :-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
28.10.2007 | 10:43
Kósíheit par exelans
Við erum búin að eiga mjög góða helgi hér í Stuðstrumpalandi. Föstudagskvöldið var að venju helgað Disney Show og Vild med dans í sjónvarpinu. Nachos í skálum ásamt heitri salsasósu með rjómaosti, rauðlauk og ólífum og Coca Cola í glösum :-) Þetta er að verða eins og helgiathöfn hjá okkur á föstudagskvöldum og okkur hlakkar til allan daginn að eiga svona kósý kvöld með kveikt upp í arninum og kerti út um alla stofu. Nú eru bara fjögur pör eftir í Vild med dans og af þeim eru bæði uppáhaldspörin okkar, Mads Vad sem er danskennari strákana og Robert Hansen sem leikur Victor í uppáhalds dönsku bíómyndunum okkar.
Í gær var Eyþór Atli að keppa í fótbolta í Ryomgaard frá 10 til 15 og Valur Snær var í bekkjarafmæli frá 11 til 14 svo við Hilmar vorum bara barnlaus í nokkra klukkutíma. Við notuðum tímann til að fara í stórinnkaupaferð á gömlu heimaslóðirnar okkar í Tilst og eyddum þrem tímum í Bilka. Við komumst í svaka jólaskap á meðan við vorum þar því það var búið að skreyta Bilka hátt og lágt og verið að selja fullt af jólavörum! Ekki seinna að vænna þar sem það eru nú bara 57 dagar til jóla, tíhíhí....
Klukkan hér í Danmörku breyttist í nótt svo ég skreið bara aftur upp í rúm í morgun þegar ég fattaði að ég var búin að vera á fótum frá því klukkan sjö samkvæmt nýja tímanum og fannst það nú allt of snemmt svona á sunnudagsmorgni! Við Hilmar ætlum að skella okkur í ræktina á eftir og fara svo í gufu og sjá hvort mér takist ekki að rífa þessa stíflu úr nefinu á mér sem er búin að vera að há mér síðustu daga. Svo ætlum við að fara seinnipartinn í heimsókn upp í Hinnerup til Guðlaugar og Sissa þar sem við ætlum að elda góðan mat saman. Það er búið að vera svo brjálað að gera hjá öllum síðustu vikur að það er orðið allt of langt síðan við hittumst svo okkur hlakkar mikið til :-)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Lífið í Løgten
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar