Færsluflokkur: Bloggar
14.2.2008 | 18:04
Meistaragráðan í höfn
Þá er þessu langa námi mínu formlega lokið. Ég er búin að vera að vinna alla vikuna í Suzlon og hef því ekki haft þann tíma sem ég hefði viljað í undirbúning fyrir vörnina miklu. Dundaði við að búa til kynningu á kvöldin og fór að sofa klukkan hálf tvö í nótt eftir kvíðakast dauðans í allan gærdag. Valur Snær lánaði mér "bekymrings" dúkku undir koddann í nótt svo allar áhyggjur hyrfu og ég vaknaði með bros á vör og glampandi sólskin á andlitinu :-)
Mætti svo galvösk í vörnina klukkan eitt með það eitt að markmiði að gera mitt besta og vera sátt við það. Var samt frekar stressuð fyrsta hálftímann og átti erfitt með að svara spurningum prófdómaranna en gat að lokum slakað á og klárað þetta til enda. Þegar ég kom svo út úr prófinu beið mín óvænt ánægja þar sem mínar yndislegu vinkonur, Guðlaug, Ásta og Brynja stóðu fyrir utan stofuna með risavaxinn blómvönd og kampavín :-) Stelpur, þið eruð bara frábærastar!
Á laugardaginn verður svo haldið pínkulítið útskriftarteiti fyrir dönsku fjölskylduna okkar til að fagna þessum lokaáfanga í náminu mínu. Eitt er víst.... ég ætla aldrei að læra framar. Ég er loksins frjáls til að opna nýja hurð inn í framtíðina og er spennt að sjá hvað bíður mín þar :-)
Knús til ykkar allra sem eruð búin að senda mér baráttukveðjur,
Eydís Hauksdóttir, M.Sc. in EU Business and Law
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
10.2.2008 | 12:28
Stóra stundin runnin upp
Þá er komið að því! Ég á að verja mastersritgerðina fimmtudaginn 14. febrúar klukkan 13:00. Ef allt gengur að óskum er ég að setja lokapunktinn á þetta nám mitt hérna í Danmörku sem ég er búin að stunda núna í tvö og hálft ár... og ekki ónýtt að ljúka þessu á sjálfan Valentínusardaginn
Ég verð nú að viðurkenna að ég fékk nett í magann þegar ég fékk þessi skilaboð í tölvupósti fyrir þrem dögum síðan og er núna að byrja að undirbúa mig fyrir þessa stóru stund. Ég er frekar stressuð yfir þessu og veit í rauninni ekkert hvernig þetta fer fram og hvernig ég á að höndla þetta En það þýðir ekkert að væla yfir því, ég "secreta" þetta bara og geri mitt besta og vona að allir mínir vinir og velunnarar hugsi hlýtt til mín á fimmtudaginn
Valur Snær var rétt í þessu að koma stormandi inn í húsið og segja okkur að það hafi fjórir bambar hlaupið fram hjá honum hérna úti í garði. Það er grindverk sem skilur garðinn okkar af frá stórum skógi og þeir voru skógarmeginn við grindverkið. Pabbi sá líka einn bamba í skóginum í fyrradag, eða dádýr held ég að þetta heiti nú á íslensku. Það er svo gaman að dýralífinu hérna og við erum líka búin að finna broddgelti, froska og eðlur í garðinum. Veðrið er yndislegt, glampandi sól, logn og 10 stiga hiti og þvílíkt vor í lofti
Vegna margra athugasemda í síðasta bloggi verð ég í lokin að segja frá baunasúpinni góðu sem mamma eldaði fyrir okkur. Það er sem sagt ekki hægt að kaupa saltkjöt hér í Danmörku svo þetta varð eiginlega hálfgerð naglasúpa. Það var sett beikon í stað saltkjötsins og svo fundum við engar gulrófur svo það var bara ýmislegt annað grænmeti sett í staðin. Þrátt fyrir allt var þetta svakalega góð baunasúpu svo við borðuðum öll yfir okkur og vorum bara mjög ánægð
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.2.2008 | 18:38
Fastelavn er mit navn
Þá er ég búin að vinna í eina og hálfa viku hjá Suzlon og líst bara vel á :-) Ég er ráðin þangað í afleysingar í 10 vikur, eða til 31. mars, og svo kemur bara framhaldið í ljós eftir það. Við Hilmar erum því enn óákveðin í hvað skal gera næsta sumar, þ.e. hvort við flytjum til Skæring eða Íslands. Það veltur að mestu leyti á þessum vinnumálum mínum. Það er alltaf nóg að gera hjá okkur öllum hérna svo engum leiðist neitt. Ennþá er enginn snjór hérna... sáum nokkur snjókorn í gær en þau náðu varla að festast við jörðina því þau bráðnuðu svo fjótt. Svo var bara sól og fallegt veður í dag.... þokkalega kalt samt og fór niður fyrir frostmark í nótt.
Ég fór út með skvísunum mínum á föstudagskvöldið, þeim Guðlaugu, Brynju og Ástu Björk og það var ekkert smá gaman að eiga svona stelpukvöld. Ásta bauð okkur í geggjaðan indverskan kjúkling og hvítvín og svo sátum við og spjölluðum fram á rauða nótt. Klukkan þrjú var ákveðið að skella sér í bæinn til að dansa smá og þar sem við erum sko ekki vanir djammarar létum við leigubílstjórann bara ráða hvert við fórum ;-) Það voru því dauðþreyttar konur sem skriðu upp í rúm klukkan fimm um morguninn.
Í dag fórum við svo í hina árlegu bolluveislu til Sissa bakara og Guðlaugar. Þar var fullt hús af Íslendingum og 150 nýbakaðar bollur, jammí, takk fyrir okkur Sissi! Svo er uppáhaldsdagurinn minn á þriðjudaginn; SPRENGIDAGUR! Ég hef ekki fengið baunasúpu í 3 ár og ég vona að hún móðir mín nenni að elda eina slíka fyrir okkur fyrst við erum nú með hana hérna hjá okkur því hún gerir heimsins bestu baunasúpu.
Við óskum öllum gleðilegs bolludags, sprengidags og öskudags :-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.1.2008 | 21:56
Suzlon Wind Energy
Ég talaði við fjármálastjóra Suzlon í gær og hann ákvað að prófa mig í einn dag og ákveða í lok dagsins hvort hann vildi ráða mig eður ei. Ég mætti því til vinnu í morgun og það fór í stuttu máli þannig að það var ákveðið að ráða mig um hádegisbilið :-) Ég byrja í bókhaldinu og svo kemur í ljós hvernig þetta þróast á næstu vikum.
Suzlon Wind Energy A/S er indverskt að uppruna og er með höfuðstöðvar fyrir Evrópu hér í Danmörku. Þeir eru starfandi í 14 löndum, Þýskalandi, USA, Indlandi, Kína, Ítalíu, Ástralíu, Danmörku, Hollandi, Belgíu, Brasilíu, Portúgal, Tyrklandi, Kanada og Grikklandi. Það starfa rúmlega 13.000 manns hjá fyrirtækinu og það er í örum vexti og því mikið að gerast.
Ég er rosalega ánægð með þetta og mér finnst þetta ákaflega spennandi fyrirtæki. Það er mjög "multi-cultural" og fjármálastjórinn er t.d. Englendingur og yfirbókarinn frá Sri Lanka. Það var tekið vel á móti mér og allir voða ánægðir að heyra að ég væri Íslendingur og töldu að ég væri líklega þrettánda þjóðernið sem er starfandi á skrifstofunni hér í Árósum. Það er ekkert smá gaman að byrja að vinna aftur eftir að hafa ekki verið á vinnumarkaði í fimm ár!
23. janúar heldur því áfram að vera stór dagur í lífi mínu þar sem ég er búin að reikna út að ég kom mjög líklega undir gosnóttina miklu fyrir 35 árum síðan....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
21.1.2008 | 21:24
Skammdegi
Ég hef ekki verið neitt sérstaklega dugleg að blogga upp á síðkastið og aðal ástæðan er að það er ósköp lítið að frétta þessa dagana. Bara "same old, same old" fréttirnar. Allt ennþá í biðstöðu, ekkert heyrst frá leiðbeinandanum ennþá, atvinnuumsóknirnar streyma úr tölvunni minni á hverjum degi og mamma og pabbi eru enn hjá okkur.... sem er náttúrulega bara bestast :-)
Mér finnst janúar og febrúar bara svo hundleiðinlegir mánuðir að ég vildi helst bara geta hoppað yfir þá eða sleppt þeim. Stefni í framtíðinni á að gera það sem tengdaforeldrar mínir eru að gera núna. Vera í nokkrar vikur í sól og sumaryl á Kanaríeyjum og stytta þannig þessa dimmu og köldu mánuði. Það er náttúrulega bara snilld :-)
Það er reyndar eitthvað smá að gerast í atvinnumálum hjá mér.... kannski. Ég fór í viðtal á fimmtudaginn hjá afleysingarþjónustu sem heitir Kelly Service. Það gekk bara vel og ég tók nokkur próf hjá þeim og svo var hringt í mig í dag frá þessu sama fyrirtæki til að ræða um hugsanlegt starf hjá vindmyllufyrirtæki sem heitir Suzlon. Fjármálastjóri Suzlon, sem er Englendingur, ætlar að hringja í mig í fyrramálið og ræða betur við mig um hugsanlegt starf. Svo nú er bara að krossa alla fingur og tær og vona það besta. Mig langar svvvvvoooooo að fara að vinna! Ég er orðin hundleið á þessu þófi og pengingaleysi. Þarf að fara að fá einhverja tilbreytingu í mitt einhæfa líf þessa dagana.
Við Hilmar skelltum okkur í bíó í gærkvöldi þar sem mamma og pabbi buðust til að passa strákana fyrir okkur. Sáum myndina "Things we lost in the fire" með Halle Berry og Benicio Del Toro og vorum bara ánægð með myndina þar sem þau sýndu bæði snilldarleik. Settumst svo inn á Café Viggo og fengum okkur Cappuccino bolla. Það var æðislegt að komast svona tvö út eina kvöldstund og ekki veitti okkur af smá tilbreytingu í skammdeginu :-)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.1.2008 | 07:35
BÚIN AÐ SKILA!
Það hlaut að koma að því að lokum að ég skilaði þessari blessaðri mastersritgerð sem ég er búin að hafa hangandi yfir mér allt síðasta ár. Ég skilaði inn tveim eintökum, innbundnum og fínum, ásamt geisladiski, mánudaginn 7. janúar 2008. Þetta var augnablik sem var fullt af stolti og mikill léttir og gleði ríkti í hjarta mínu :-)
Nú bíð ég bara eftir að heyra frá leiðbeinandanum mínum sem þarf að lesa yfir meistarastykkið og ákveða stund og stað fyrir vörnina. Ég vona að það verði sem fyrst svo ég þurfi ekki að ganga um með kvíðahnút í maganum of lengi... Á meðan ég bíð held ég áfram að sækja um vinnur, bæði hér í Árósum og á Íslandi... svo framhaldið veltur allt á því hvar við endum. Húsaleigusamningurinn hér í Studstrup rennur út 1. júlí 2008 svo það verða breytingar hjá okkur þann dag. Það er bara spurning hvor býður betur, Ísland eða Danmörk?
Mamma og pabbi eru búin að vera hjá okkur síðan 22. desember og eru búin að slappa vel af og ekkert farasnið á þeim enn... alla vega ekki mömmu. Pabbi er aðeins farinn að vera eirðarlaus og er að spá í að fara að drífa sig aftur í vinnuna í Málmtækni. Það er ekkert smá gott að hafa þau hérna hjá okkur og strákarnir eru alveg í skýjunum og kunna vel að meta alla þessa athygli. Annars er alltaf nóg að gerast í kringum okkur og á sunnudaginn fórum við ásamt pabba og mömmu í afmæli til Brynjars og Brynju í Egå sem var mjög gaman eins og alltaf þegar danska fjölskyldan okkar hittist. Á mánudaginn kíktum við háskólastelpurnar svo til Hildar í Viby og skoðuðum nýjasta Íslendinginn á Árósarsvæðinu... a.m.k. í okkar vinahóp ;-) Svo erum við búin að rúnta um og skreppa í bæjarferðir og búðir og strákarnir fengu loksins langþráða jólaklippingu... þótt seint sé!
Bloggar | Breytt 12.1.2008 kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
1.1.2008 | 14:39
Takk fyrir gamla árið
Þá er árið 2007 runnið í aldanna skaut og nýtt og spennandi ár framundan. Árið 2007 hefur verið nokkuð gott við okkur litlu fjölskylduna í Danmörku, engar markverðar breytingar eða stórviðburðir... en rólegt og gott ár. Hilmar er búinn að vinna hjá Pressalit Care allt árið, ég er búin að læra allt árið.... og hefur það að mestu verið helgað ritgerðarskrifum hjá mér. Strákarnir hafa staðið sig með sóma í dönskum skóla og voru meiri breytingar hjá þeim en okkur þar sem þeir skiptu um skóla og íþróttalið í haust og hafa eignast marga nýja vini.
Helsti viðburður ársins hjá fjölskyldunni voru flutningur í sumar frá Tilst til Studstrup þar sem við nær þrefölduðum fermetrafjöldann á híbýlum okkar. Það kom sér virkilega vel í júlímánuði þar sem strandhúsið góða var fullt út úr dyrum af yndislegum gestum frá Íslandi og Noregi allan mánuðinn. Í haust og það sem af er vetri höfum við líka fengið enn fleiri gesti og haldið nokkrar góðar veislur og matarboð fyrir okkar frábæru vini hér á Árósarsvæðinu.
Jólin eru búin að vera ljúf með góðum gestum þar sem allir hafa að mestu tekið lífinu með ró og spekt. Hér er búið að vaka frameftir, sofa út, lesa jólabækur í bunum, horfa á bíómyndir, spila Trivial og Scrabble og borða fullt af góðum mat. Gamlárskvöld var mjög skemmtilegt þar sem Guðlaug og Sissi bættust í hópinn svo við vorum alls 11 hér í Stuðstrumpalandi. Borðuðum rækjukokteil og ljúffeng íslensk lambalæri með öllu tilheyrandi. Kveiktum áramótabrennu úti í garði, horfðum á skaupið á netinu og skutum upp flugeldum í tonnavís. Eftir miðnætti breyttist húsið svo í nornahús þegar ég lagði tarot spil fyrir suma gestina meðan Guðlaug las rúnir fyrir aðra og svartur köttur sprangaði hér um gólfin :-)
Við óskum öllum gleðilegs árs 2008 og vonum að það færi ykkur öllum mikla ást og hamingju...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.12.2007 | 00:51
Dagur klúðurs
Dagurinn í dag er allur búinn að ganga meira og minna á afturfótunum. Ég ætlaði t.d. að skila ritgerðinni minni í dag... og auðvitað varð Eyþór Atli veikur svo ég komst ekki niður í skóla fyrr en eftir hádegi. Þá var búið að loka bæði innbindingarherberginu og prófaskrifstofunni þar sem ég á að afhenta ritgerðina. Ekki nóg með það... það eru allir farnir í jólafrí og það opnar ekki aftur fyrr en 2. janúar! Þannig að ég verð víst að bíta í það súra epli að ná ekki að losa mig við meistarastykkið fyrir jól eins og planið var.
Svo áttu mamma og pabbi að fljúga af stað til okkar klukkan hálf tólf í kvöld en fluginu þeirra var frestað um fjóra tíma... sem þýddi að þau missa af lestinni sem ég var búin að kaupa miða fyrir þau í. Mér tókst þó að fá miðana endurgreidda og ætlaði að ganga frá nýjum miðum... en þá voru bara eftir stæði í lestinni og öll sæti uppseld. Sé þau ekki alveg fyrir mér standa í þrjá og hálfan tíma í lest eftir næturflug. Ég athugaði þá með rútu fyrir þau og næsta rúta sem þau gátu náð á að vera sex tíma á leiðinni til Árósa... Við Hilmar fórum þá að spá í að keyra af stað í nótt og sækja þau og fórum að athuga með ferjur... en þá byrja þær ekki að sigla fyrr en klukkan sjö í fyrramálið sem hefði þýtt að þau hefðu þurft að bíða í nokkra klukkutíma eftir okkur. Lokaúræði var því að panta bílaleigubíl á Kastrup... sem tókst! Ótrúlegt en satt, ég fékk bílaleigubíl með 7 tíma fyrirvara. Ég er því búin að vera á netinu og símanum að stússast í þessu í þrjá tíma og klukkan að verða tvö um nótt núna. Ég vona að flugið gangi áfallalaust úr þessu og það verði ekkert vesen með þennan bílaleigubíl :-S
Held ég taki mér aðra bloggara til fyrirmyndar og fari í jólabloggfrí og njóti gestanna minna næstu daga :-)
Ég óska ykkur öllum gleði á jólum og áramótum.
Ps. Verð að skjóta því að hérna líka að hann elsku Hilmar minn varð 37 ára í fyrradag og er bara alveg jafn myndarlegur og þegar hann var 36 :-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.12.2007 | 18:27
Jólin nálgast og spennan eykst
Jæja, þá eru bara sex dagar til jóla, fimm dagar í Evu, Viktor Inga og Daníel Þór, fjórir dagar í mömmu og pabba og þrír dagar í ritgerðarskil. Allt að verða tilbúið fyrir jólin, allir pakkar frá okkur komnir til Íslands og Noregs, næstum öll jólakortin komin í póst og áðan keyptum við þetta líka stóra og glæsilega jólatré fyrir 229 krónur.
Um helgina skelltum við okkur til Þýskalands ásamt Guðlaugu og fjölskyldu og birgðum okkur upp af gosi og nammi fyrir jólin. Göngugatan í Flensborg var þvílíkt jólaleg og skreytt og þar var líka jólamarkaður með alls kyns sölubásum. Það fyrsta sem við gerðum þegar við komum til Flensborgar var að bruna beint á Subway þar sem við gæddum okkur á ljúfengum bátum. Hilmar var sérstaklega ánægður með það þar sem hann hefur ekki fengið langþráðan söbbara í meira en eitt ár.
Það er mikill spenningur á hverju kvöldi hjá Val Snæ þegar hann er að fara í rúmið og miklar pælingar í gangi hvernig íslensku jólasveinarnir fari eiginlega að því að finna bara skóna hjá íslenskum börnum og hvernig þeir geti fylgst með því hvort hann sé þægur á daginn þegar þeir eru svona langt í burtu... Hann teiknaði íslenska fánann á blað og hengdi í gluggann sinn svo það væri alveg á hreinu hvaða glugga hann ætti. Svo skilur hann ekki hvernig þeir vita að hann sé íslenskur þegar hann er í skólanum... því hann talar jú bara dönsku þegar hann er þar! Það er svo yndislegt að fylgjast með honum og þessum hugleiðingum hans allan daginn og þessa dagana dettur mér daglega í hug vísan um hann Ara sem var... bara átta ára trítill... og spurningum Ara er ei auðvelt að svara... mamma, af hverju er himininn blár?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.12.2007 | 20:39
Jólakort
Þar sem ég var að skrifa fyrstu jólakortin í kvöld þá ákvað ég að setja hér inn smá skilaboð til þeirra sem eru í jólakortahugleiðingum :-)
Heimilisfangið okkar er:
Blishønevej 11
Studstrup
8541 Skødstrup
Danmark
Blóm og gjafir eru líka vel þakkaðar, múhahaha....
Med venlig hilsen, Eydís & Hilmar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Lífið í Løgten
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar