Slumdog Millionaire

slum-dog-millionaireÉg fór að sjá þessa mynd í bíó í gær ásamt vinnufélögum mínum hér í Árósum og hún hafði mikil áhrif á mig. Í hópnum okkar voru líka Indverjar þar sem Suzlon, fyrirtækið sem ég vinn hjá, er Indverskt og ég held að það hafi verið mjög sérstakt fyrir þá að sjá landið sitt í þessu ljósi á kvikmyndatjaldi. Þó þeir séu vanir að horfa upp á þessa fátækt.... þá er einkennilegt að sjá þetta með augum vesturlandabúa sem hafa það svo gott. Við megum svo sannarlega vera ótrúlega þakklát fyrir að vera fædd í vestrænum hluta heimsins.

Mér finnst frábært að framleiðendur Slumdog Millionaire ætli að gefa 100 milljónir til fátækrahverfis Mumbai... og fyrir utan það eru þeir búnir að gera stórkostlegan hlut með því að sýna heiminum hvernig stór hluti barna Indlands lifir lífinu.


mbl.is Framleiðendur Villtu vinna milljarð? styrkja Mumbai
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilegt páskaegg

Þá er bara komið fimm daga páskafrí, jibbí LoL Það er búið að vera nóg að gera í vinnunni síðustu vikur svo þetta er svo sannarlega langþráð frí! Strákarnir eru búnir að vera í fríi í fimm daga og eiga svo aðra fimm daga eftir... þvílíkur lúxus! Okkur Hilmari hlakkar mikið til að sofa út og gera eitthvað skemmtilegt með strákunum okkar næstu daga. Við stefnum á göngutúra á ströndinni og í skóginum í góða vorveðrinu og grípa svo í spil á kvöldin... aldrei að vita nema við skreppum líka í sund eða keilu Smile

paskaeggVið vorum svo heppin að fá Garðar Atla systurson Hilmars í heimsókn í síðustu viku. Hann er svo frábær og yndislegur og strákarnir fíla í tætlur að eiga svona svalan töffara sem frænda. Meðan við hjónin vorum í vinnunni, sótti Garðar Atli strákana í skólann og fór með þá á McDonalds og í Harley Davidsson búðina að skoða mótorhjól. Geggjað kúl sko Cool Við skelltum okkur líka í keilu og grilluðum góðan mat svo þetta var voða skemmtileg heimsókn.

Garðar kom líka með fulla ferðatösku af íslensku góðgæti svo það verður algjör lúxus matur hjá okkur um páskana.... og íslensk páskaegg þar að auki Tounge Við þökkum tengdafjölskyldunni enn og aftur kærlega fyrir sendinguna InLove

Marseille ferðin var mjög góð en frekar erfið líka. Það er ekki auðvelt að stappa uppstríluð á háum hælum í sýningarbás 10 tíma á dag. Það fyrsta sem ég gerði hvert kvöld þegar ég kom heim á hótel var að kasta mér í freyðibað og láta þreytuna líða úr bakinu og fótunum Errm Eftir það var ég fersk til að fara út að borða á frönskum veitingastöðum með vinnufélögunum sem var bara æðislegt. Marseille er skemmtileg borg með þröngum bröttum götum og gömlum húsum. Það var skemmtilegt að sjá þessa frönsku menningu og litskrúðugan þvott hanga út um gluggana á þessum gömlu húsum sem voru öll með alls kyns lituðum gluggahlerum. Ég var reyndar skíthrædd í leigubílunum því þeir keyrðu eins og brjálæðingar og einu reglurnar sem virtust gilda þarna var að blóta og öskra út um gluggana. Svo skutust vespur og reiðhjól milli bílana eins og ekkert væri sjálfsagðara... svo ég lokaði bara augunum og baðst fyrir Frown

Í sambandi við vaxtahormónarannsóknina hans Eyþórs Atla er ekkert nýtt að frétta. Við erum enn að bíða eftir niðurstöðum úr rannsóknum og látum vita þegar eitthvað gerist.

Annars óskum við öllum gleðilegrar páskahátíðar og vonum að þið eigið yndislegt og gott frí Heart

 


Mars pistill

Mars er mættur á svæðið með vor í lofti, fuglasöng, vorlaukum og meiri sól Cool Lífið er yndislegt og það er mun bjartara yfir bæði mönnum og dýrum. Hér á bæ lítur líka allt betur út heldur en í síðasta mánuði, bíllinn búinn að vera til friðs síðastliðnar vikur og heilsufarið líka Joyful 

Engir stórviðburðir búnir að gerast hjá litlu fjölskyldunni í Vosnæsparken nýlega. Lyftum okkur þó aðeins upp síðustu helgi og skelltum okkur í dagsferð til Álaborgar ásamt Guðlaugu, Sissa og börnum. Þar var Subway að opna veitingastað... sem er sá eini hér í Danaveldi. Við erum ekkert smá ánægð með það þar sem það er helmingi styttra fyrir okkur að bruna þangað heldur en til Þýskalands. Við erum bara einn tíma til Álaborgar en tvo tíma til Þýskalands Wink 

subway-eatfreshSubway staðurinn var reyndar mjög lítill og enginn borð þar inni... en bragðið klikkaði ekki! Enduðum svo ferðina heima hjá Guðlaugu og co. þar sem okkur var boðið upp á þennan fína mat og bragðaref í eftirrétt. Það er svo fyndið hvers maður saknar þegar maður býr svona í útlöndum... og þar er alls kyns matur oft ofarlega á lista. Eitthvað sem manni fannst svo sjálfsagt og eðlilegt að fá sér á Íslandi... verður ótrúlegur lúxus þegar maður hefur ekki aðgang að því. T.d. söknum við nánast allra skyndibitastaðanna í Reykjavík, alveg frá Bæjarins Bestu, KFC og upp í Ruby Tuesday og American Style.

Það er líka þvílíkt gaman þegar einhver á Íslandi laumar smá nammi með í kassann þegar við fáum sendingar að heiman... þá lúrum við á því eins og gulli og felum það fyrir öllum gestum... þeir geta bara fengið danskt nammi, tíhíhí. Mamma er líka dugleg að senda okkur smá glaðninga í pósti eins og tímarit, íslenskt gæðakaffi og Royal búðinga Grin Væri líka alveg til í að fá Cheerios, Lucky Charms, harðfisk og flatkökur Wink

Vá hvað ég er orðin svöng af að hugsa um allt þetta góðgæti... eins gott að Hilmar er að baka köku núna Smile 

Af vinnumálum er líka ýmislegt að frétta. Forstjórinn í vinnunni hans Hilmars var rekinn í síðustu viku sem voru mjög óskemmtilegar fréttir. Frábær maður sem er búinn að reynast Hilmari haukur í horni oft og mörgum sinnum síðastliðin þrjú ár. Hann var t.d. sá fyrsti og eini sem var tilbúinn að ráða Hilmar í vinnu þrátt fyrir dræma dönskukunnáttu og hefur oft reddað Hilmari yfirvinnu þegar það hefur verið hart í ári hjá okkur. En þetta var víst enn ein sparnaðarráðstöfunin í kreppunni ásamt því að það verða engar launahækkanir hjá neinum í Pressalit í ár Woundering

tehachapi_wind_farmÉg hef haft nóg að gera í minni vinnu þar sem "tender-um" rignir inn þessa dagana. Ég bauð mig líka fram í stjórn nýstofnaðs starfsmannafélags Suzlon sem hefur hlotið nafnið "The Suzial Club" og það er fullt af skemmtilegum atburðum framundan þar. Vorum með stóra söfnun fyrir Afríku um daginn og næst á dagskrá er að fara á "Slumdog Millionaire" til að fá meiri innsýn í líf samstarfsmanna og vina okkar frá Indlandi. Fyrir rúmri viku byrjaði svo Guðlaug að vinna hjá Suzlon sem er náttúrulega bara frábærast Happy Ekkert smá gaman að fá vinkonu sína í húsið og get hitt hana oft á dag. Til hamingju Guðlaug, ég er ekkert smá ánægð með þig InLove 

Á planinu er svo Frakklandsferð hjá mér ásamt nokkrum vinnufélögum. Við erum á fara á EWEC (The European Wind Energy Conferance) í Marseille. Við förum eftir viku og verðum þar í fimm daga á risastórri orkusýningu þar sem Suzlon verður með 200 fm bás.

Á meðan verður Hilmar einstæður (og einstakur) faðir og þarf meðal annars að eyða einum degi með Eyþóri Atla á Skejby sjúkrahúsinu. Hann er að fara í vaxtahormónarannsókn til að rannsaka af hverju hann vex svona hægt. Hann er 134 cm og hefur nánast ekkert vaxið í meira en ár. Við vonum að læknarnir finni nú einhverja sniðuga lausn á þessu vandamáli svo elsku strákurinn okkar verði nú stór og sterkur Frown

Læt þetta nægja í bili og ég óska þess að þið eigið öll bjartan og góðan mars mánuð framundan Halo


Óheillamánuður að baki

Vá, vá, vá, febrúar kominn og það er meira að segja heil vika búinn af honum nú þegar. Mér finnst það alveg geggjað þar sem mér finnst janúar og febrúar langleiðinlegustu mánuðir ársins. Kaldir og dimmir, engir auka frídagar og algjör blankheit eftir jólaeyðsluna. Við erum líka búinn að vera með risastórt óheillaský svífandi yfir hausnum á okkur frá áramótum. Bíllinn er búinn að vera með bölvaða stæla við okkur og þrisvar í janúar hef ég aðeins komist hálfa leið til vinnu vegna hans. Tvisvar bilaði hann og daginn eftir að hann kom úr seinni viðgerðinni lá mér svo hrikalega á að komast í vinnuna að ég þrusaði honum á gangstéttarkant og sprengdi dekkið í tætlur. Elsku strákalingarnir mínir voru með og þurftu að hoppa með mér út úr bílnum og upp í næsta strætó með skólatöskur á bakinu og ég með veskið mitt, tölvuna og fullt fangið af möppum.... skemmtileg byrjun á ísköldum og dimmum janúarmorgni Whistling Fyrir utan þetta eru alls kyns leiðinda pestir búnar að dynja á fjölskyldunni með tilheyrandi óþægindum. Það er því eins gott að janúar sé liðinn og febrúar þjóti sem hraðast áfram svo að skemmtilegu mánuðirnir geti farið að gleðja okkur með blóm í haga og sól í hjarta Halounhappy

Vetrarfríið í Skæring Skole hófst í dag og eru strákarnir því komnir í hvorki meira né minna en níu daga frí. Við Hilmar erum bara komin í helgarfrí og þurfum að vinna alla næstu viku meðan guttarnir njóta þess að sofa út og chilla Sideways Þetta er búin að vera skemmtileg og öðruvísi vika í skólanum hjá þeim. Bekkurinn hans Eyþórs Atla var til dæmis að horfa á "The Never Ending Story" í gær og Hilmar bakaði köku fyrir þau til að hafa með myndinni sem vakti mikla lukku. Í dag var svo körfuboltadagur hjá öllum fjórðu og fimmtu bekkjunum og liðið hans Eyþórs Atla sem hét því frumlega nafni "Grófu moldvörpurnar" vann mótið og verðlaunin voru gjafakort í salatbarinn í skólamötuneytinu W00t

Bekkurinn hans Vals Snæs er búinn að vera að undirbúa stóra leiksýningu af Kardemommubænum í heilan mánuð og við mættum svo öll á frumsýninguna í gær. Þau gerðu sjálf alla leikmyndina og búningana og léku og sungu lögin af mikilli innlifun. Valur Snær lék Jónatan og stóð sig svo svakalega vel að mamman fékk tár í augun af stolti Heart

Framundan er langþráð helgarfrí með góðri afslöppun eftir erfiða vinnuviku. Ég er búin að pína mig fárveika í gegnum alla vikuna með höfuðið stútfullt af kvefi og vanlíðan þar sem ég hef haldið mér gangandi á verkjatöflum, nefspreyi og hundruðum tebolla. Gerði svo heiðarlega tilraun til að meika yfir rautt nef og bólgin augu.... sem tókst nokkurn veginn þegar ég var búin að smyrja fimm lögum á andlitið á mér. Gat samt ekki stoppað tárin sem trilluðu reglulega niður kinnarnar á mér og gerðu skemmtilegt mynstur í meikið Errm

Eigið góða helgi elskurnar... það ætla ég sko að gera Smile

 


Dimmur Janúar

Þá eru þrjár vikur liðnar af árinu 2009. Danmörk hefur verið dimm, köld, blaut og þokukennd það sem af er árinu en við erum þó farin að merkja að dagsbirtan nær að yfirgnæfa myrkrið pínulítið lengur en fyrir mánuði síðan. Okkur er nú þegar farið að hlakka til vorsins og að fá sólskin og yl inn í líf okkar aftur Cool

January2008(1)darkStrákarnir hafa verið duglegir í skólanum og mæta á sínar æfingar í fótbolta og skátum og þó þeir séu nýbúnir í jólafríi eru þeir farnir að telja niður dagana fram að vetrarfríi.... sem er nú bara eftir tvær og hálfa viku! Ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram Wink

Við Hilmar keyptum okkur árskort í líkamsræktarstöðinni hér í Løgten og erum að komast á gott skrið þar. Stefnan er að koma sér í gott form fyrir sumarfrí svo við þurfum nú ekki að fara of mikið hjá okkur þegar við mætum á ströndina í sumar Whistling Við höfum aðallega verið í tækjunum og gær fór ég í fyrsta skipti í svona hóptíma. Það heitir Bodytoning og ég var með 10 kílóa lóð á öxlunum í heilan klukkutíma meðan ég gerði alls kyns brjálaðar æfingar.... enda get ég ekki hreyft mig í dag fyrir harðsperrum Frown Það er eins gott að ég sjái einhvern árangur eftir allar þessar kvalir!

Annars hefur bara verið frekar rólegt í kringum okkur litlu fjölskylduna. Helgarnar höfum við notað í heimsóknir og verið í afslöppun þess á milli. Strákarnir hafa verið aðeins virkari en foreldrarnir og verið í bekkjarafmælum, matarklúbbum og næturgistingum hjá vinum. Við skruppum líka eitt föstudagskvöldið í tveggja tíma bíltúr til Flensborgar og fengum okkur Subway.... mmmm, það var sko ljúfengt Tounge 

Á sunnudaginn verður svo nóg að gera hjá okkur. Valur Snær er að fara í Leiklandið í Brabrand með bekknum sínum allan daginn og Eyþór Atli er að fara að keppa á fótboltamóti. Við Hilmar verðum því að skipta liði og draga um það hvort okkar fær að leika sér og hvort okkar fær að horfa á fótbolta Wink


Gleðilega hátíð

Hér í Løgten erum við búin að eiga yndisleg jól og áramót. Á aðfangadag vorum við bara fjögur og ég held það sé bara í fyrsta skipti sem við erum ekki með neinum öðrum á aðfangadagskvöld. Það var bara mjög notalegt og maturinn tókst rosa vel. Allir fengu svo góðar gjafir og skemmtu sér vel við að opna þær fram eftir kvöldi Smile

newyearEftir það erum við búin að fara í alls kyns kaffi og matarboð og auðvitað halda nokkur sjálf líka Wink Maturinn alls staðar hefur verið þvílíkt góður og félagsskapurinn ekki síðri og í nokkur skipti hefur verið spilað Scrabble og Trivial langt fram á nótt. Á Gamlárskvöld vorum við upp í Hinnerup hjá Guðlaugu og Sissa, ásamt Hrönn og Kidda, og var kvöldið frábært. Allt rosa flott skreytt og maturinn geggjaður, horfðum svo á fréttaannál og Skaupið í beinni á netinu. Algjör snilld þessi tækni í dag. Svo var að sjálfsögðu farið út og gamla árinu skotið langt út í geim.

Við óskum ykkur öllum gleðilegs árs 2009, fullu af spennandi ævintýrum, ást, gleði og hamingju Heart


Afmælisdagur Hilmars

IMG 1595Þá er skollið eitt ár í viðbót á Hilmar minn og hann verður bara yngri og myndarlegri með hverju árinu Heart Afmælisdagurinn hans var í gær, 20. desember, og hann átti bara fínan dag. Við gáfum honum íslenskan stuttermabol frá Dogma sem stendur á: "Ég fer í ljós þrisvar í viku og mæti reglulega í líkamsrækt. Ég fer í Hollywood um helgar með mynd af bílnum í vasanum". Hann vildi reyndar ekki kannast við að hafa mynd af Daewoo druslunni í vasanum, híhíhí Wink

Mynd008Svo fórum við til Horsens og kíktum á jólastemninguna þar í skítakulda. Það var samt mjög fínt og við keyptum okkur hringferð um  bæinn í geggjaðri limósínu í tilefni afmælisdagsins. Hittum svo Guðlaugu og fjölskyldu og fengum okkur kaffi með þeim og röltum svo aðeins meir um strikið og kíktum á jólabásana.

Alda og Borgar komu svo með strákana sína þrjá til okkar um kvöldið og borðuðu með okkur svínalundir og svo horfðum við á Holyfield boxa við þennan líka forljóta Rússa. Þrátt fyrir að Holyfield tapaði bardaganum var samt afmælisdagurinn bara fínn og skemmtilegur Wizard


Aðventa

Tíminn rýkur áfram og það eru bara skollin á enn ein jólin eftir 9 daga W00t Við Hilmar erum algjör jólabörn og elskum aðventuna. Heimilið var skreytt fyrstu helgina í aðventu og við erum búin að jólast með ýmsu móti síðan þá. Við erum bæði búin að fara á jólahlaðborð og jólaskemmtun með vinnufélögum okkar og strákarnir eru búnir að vera í alls kyns jólastússi í skólanum sínum.

Danska fjölskyldan var með jólahlaðborð heima hjá okkur aðra helgina í aðventu og það tókst rosa vel. Allir komu með einhvern jólarétt og svo átum við á okkur gat... alls 14 manns Smile Við erum líka búin að fara í barnaafmæli síðustu þrjár helgar hjá hinum ýmsu afmælisbörnunum og það er alltaf voða notalegt að fá kaffi og kökur og spjalla um allt milli himins og jarðar.... þó krepputal sé því miður ennþá efst á baugi í flestum umræðum FootinMouth Fyrstu helgina í aðventu fórum við í 9 ára afmæli til Sindra í Hinnerup, aðra aðventuhelgi átti Patrekur í Hornslet 3 ára afmæli og þriðju helgina í aðventu fórum við í 11 og 12 ára afmælisveislu til Köru Mistar og Péturs í Grenå. Og til að klára þessi aðventuafmæli verður sæti eiginmaðurinn minn 38 ára gamall á laugardaginn InLove

stúfurÍ síðustu viku kláruðum við að versla allar jólagjafir sem við þurftum að senda frá okkur og komum svo öllu saman í póst á föstudaginn. Nú krossum við bara fingurna og vonum að allir pakkar komist til skila fyrir jól Undecided Við vorum nefnilega tveim dögum á eftir áætlun á pósthúsinu og pósturinn vildi ekki alveg ábyrgjast að þetta bærist í tíma. Á Þorláksmessu er svo stefnan að versla jólagjafir fyrir strákalingana okkar og þeir eru búnir að vera svaka duglegir að skrifa óskalista í tonnatali... Í gær jóluðumst við svo ennþá meira og fórum upp í Hinnerup og bökuðum piparkökur með glassúr. Það tókst mjög vel og það voru meira að segja bakaðar nokkrar vindmyllur í leiðinni Smile

Það hefur verið mun auðveldara en venjulega að vekja strákana síðustu daga eftir að íslensku jólasveinarnir lögðu af stað til byggða. Valur Snær er sérstaklega spenntur og vaknar um miðjar nætur til að kíkja í skóinn.... sem er reyndar ekki hans eiginn því hann setti skóinn hans Hilmars í gluggann svo það væri meira pláss. Hann setti líka skó út í gluggann fyrir köttinn svo hann fengi nú örugglega eitthvað gott líka. Það er því frekar annasamt hjá jólasveinunum í ár Whistling


Jólaundirbúningurinn að hefjast

Það er nú meira hvað ég er orðin löt við að blogga hérna. Nú er maður orðinn svo húkkt á Facebook að það kemst bara ekkert annað að þegar kveikt er á tölvunni. Ótrúlegt hvað hægt er að gleyma sér þarna inni við að gera bókstaflega ekki neitt! Samt getur maður ekki hætt... Shocking Alltaf jafn spennandi að sjá hvort það er komin ný vinafyrirspurn.... eða einhver búin að kommenta á vegginn.... eða myndirnar. En þetta er ótrúlegt tengslanet sem myndast þarna. Og ekki hafði ég hugmynd um hvað ég þekkti mikið af fólki Whistling Ótrúlegasta fólk sem dúkkar upp þarna. Ég er meira að segja búin að finna fólk sem ég hef ekki séð síðan ég var krakki... sem ég þekkti í Borgargerðinu, Breiðagerðisskóla, leikskólanum og frá því að ég var pokadýr í Hagkaup. Ótrúlega spennandi að gægjast inn í líf fólks, skoða myndaalbúmin og sjá hvað orðið hefur úr þessum krakkaskröttum sem voru bara villingar með hor þegar ég sá þá síðast Wink

Annars er ekkert stórmerkilegt búið að gerast hérna í Løgten síðan síðast. Höfum bara kíkt í heimsóknir hingað og þangað um helgar og smá bæjarferðir af og til. Hilmar fór á jólahlaðborð með vinnunni sinni á föstudagskvöldið og spilaði jólakeilu og kom heim með verðlaun fyrir að vera best klæddi starfsmaðurinn Cool Ekki amalegt að eiga svona flottan elskhuga....

StrøgetÉg er búin að vera á fullu að læra á nýja starfið mitt hjá Suzlon og er aðeins byrjuð að skilja eitthvað í þessum vindmylllufræðum og verð vonandi orðin sérfróð um vindmyllur innan skamms.... sem á pottþétt eftir að nýtast mér svakalega vel þegar við flytjum einhverntímann til Íslands.... ehemm Woundering

Næsta föstudag er svo jólaskemmtun í vinnunni minni og fjörið byrjar klukkan 12 á hádegi og endar klukkan 2 um nóttina.... veit ekki alveg hvort ég endist svo lengi. Mig langar líka til að vera á Strikinu á föstudagskvöldið með strákunum mínum og sjá Jólasveininn koma siglandi frá Grænlandi og kveikja á jólaljósunum. Væri líka alveg til í að byrja að versla jólagjafir þar sem búðirnar verða opnar til miðnættis. Ég er ekki búin að kaupa eina einustu jólagjöf... sem er mjög óvenjulegt því síðustu ár hef ég alltaf verið búin að klára að kaupa flestar gjafir fyrir aðventu. En við ætlum nú að byrja á einhverjum jólaundirbúningi næstu helgi... skreyta húsið alla vegana og kannski byrja á einhverjum bakstri... og svo er aldrei að vita nema fyrsta jólagjöfin verði keypt Smile


Afmælisstrákur

Þá er komið að þriðja afmælinu hérna í Vosnæsparken. Stóri sæti sykurmolinn okkar sem var einu sinni svo pínulítill... er 11 ára í dag Wizard Hann er búinn að bíða svo lengi eftir þessu, telja niður dagana og vera svo spenntur. Við vöktum hann með afmælissöngnum klukkan sex í morgun.... ég veit, ég veit, það er mjög ókristilegur tími.... en svona er þetta bara ef það á að opna pakkana áður en pabbinn leggur af stað í vinnuna klukkan hálf sjö. Hann var búinn að mæna í tvær vikur á pakkana frá Íslandi svo það var geggjað að fá loksins að opna þá W00t

Mega kúlHann var hæstánægður með gjafirnar og fór í spánýjum afmælisfötum í skólann með 30 "flødeboller" fyrir bekkinn sinn og kennarana. Svo er planið í dag að sækja hann í skólann klukkan hálf tvö, ná svo í Hilmar í vinnuna og mæta svo á opið hús hjá Suzlon klukkan tvö. Það verður rosa veisla hér í tilefni af flutningnum í nýja húsið, borgarstjórinn í Árósum mætir á svæðið og allir verða hér með fjölskyldunar sínar Smile

Valur Snær verður í matarklúbb með fimm bekkjarsystkinum sínum á meðan og í kvöld fer svo öll fjölskyldan á frumsýninguna á nýju James Bond myndinni. Það var einlæg ósk afmælisbarnsins sem kallar sjálfan sig í daglegu tali "den lækreste 007" Whistling

Til hamingju með afmælið elsku besti strákurinn okkar Heart


Næsta síða »

Um bloggið

Lífið í Løgten

Höfundur

Eydís Hauksdóttir
Eydís Hauksdóttir
Við hjónin búum ásamt sonum okkar tveim í Danmörku. Við fluttum til Árósa í júlí 2005 í kjölfarið af útskrift minni sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Ég byrjaði svo haustið 2005 í meistarnámi í lögum og viðskiptum Evrópusambandsins sem ég lauk í febrúar 2008. Nú vinn ég hjá indversku vindmyllufyrirtæki sem heitir Suzlon Wind Energy A/S. Hilmar er að vinna hjá frábæru fyrirtæki sem heitir Pressalit Care við að smíða sjúkrarúm og alls kyns rafknúna hluti fyrir fatlaða og einnig fyrir leikskóla. Synir okkar eru Eyþór Atli 11 ára fótboltakappi og Valur Snær 9 ára skáti.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • slum-dog-millionaire
  • slum-dog-millionaire
  • paskaegg
  • tehachapi wind farm
  • subway-eatfresh

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband